Fara í efni

Stúlkur gera sér ranghugmyndir um smíðanámið

Snædís (t.v.) og Rakel Mjöll.
Snædís (t.v.) og Rakel Mjöll.

Í gær var hér á vefsíðunni rætt við nemendur á sjúkraliðabraut VMA og þar kom fram að mikill meirihluti nemenda væri og hefði alltaf verið stúlkur – enda hafa sjúkraliðar lengi verið kvennastétt. Á hinn bóginn eru strákar í miklum meirihluta nemenda í grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina, bæði í húsasmíði og húsgagnasmíði. Hlutfallslega eru þó fleiri stúlkur í húsgagnasmíðinni. Snædís Jósepsdóttir frá Eskifirði og Rakel Mjöll Jóhannesdóttir, sem býr í Vaðlaheiðinni, austan Eyjafjarðar, eru báðar á fyrsta ári í grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina.

Snædís: Ég var fyrir tveimur árum á textílkjörsviði listnámsbrautar en tók mér síðan tveggja ára frí frá námi til að vinna og ferðast en er sem sagt komin aftur hingað í húsgagnasmíði. Í framhaldinu hef ég áhuga á því að fara í innanhússarkitektúr. Til þessa hefur þetta verið mjög áhugavert, á þessum fyrstu vikum er ég búin að læra alveg fullt sem ég kunni ekki áður.

- Af hverju fara ekki fleiri konur í húsa- og húsgagnasmíði?

Snædís: Það er erfitt að segja. Sennilega kynna stúlkur sér þetta nám ekki nægilega vel, þær gera sér líklega ranghugmyndir um þetta.
Rakel Mjöll: Ég hugsa að margar stúlkur haldi að húsa- og húsgagnasmíði séu karlastörf og þær geti ekki tekist á við þau. Það er hins vegar mikill misskilningur. Flestar konur sem fara á annað borð í þetta nám fara í húsgagnasmíðina en ég er ákveðin að fara í húsasmíði, mér finnst hún mun áhugaverðari. Það hlýtur að vera gaman að geta keyrt um göturnar og sagt; ég tók þátt í því að byggja þetta hús! Ég vann í byggingavinnu sl. sumar hjá ÁK smíði hér á Akureyri og mér líkaði það mjög vel. Við unnum úti í öllum veðrum og það var bara ekkert mál. Ef maður hefur áhuga á því sem maður er að gera skiptir veðrið engu máli. Í þessu námi erum við bæði í bóklegu og verklegu námi og það finnst mér mjög skemmtilegt. Ég myndi ekki nenna að sitja allan daginn við tölvuna. Ég kláraði grunnskólann sl. vor og ákvað endanlega að fara í þetta nám nokkrum vikum áður en umsóknarfresturinn rann út. Það er svolítill strákur í mér, eins og það er kallað, og ég var nokkuð viss um að mig langaði í eitthvert verknám – ég hafði velt fyrir mér smíðum, rafvirkjun eða bifvélavirkjun. Húsasmíðin varð síðan niðurstaðan og ég er bara mjög sátt við það val.