Fara í efni

Stefnt að því að kenna 3. bekkinn í matreiðslu á vorönn - opið fyrir umsóknir

Einn af nemendunum í fyrsta 3. bekkjar hópnum.
Einn af nemendunum í fyrsta 3. bekkjar hópnum.

Á þessari önn hefur í fyrsta skipti  í sögu VMA verið boðið upp á nám í þriðja bekk í matreiðslu sem er lokaáfangi nemenda áður en þeir gangast undir sveinspróf í matreiðslu. Raunar er þetta í fyrsta skipti sem slíkt lokastig náms í matreiðslu er í boði utan höfuðborgarsvæðisins og því hafa nemendur í matreiðslu hér norðan heiða þurft fram að þessu að fara suður yfir heiðar og ljúka náminu í MK í Kópavogi. Það hafa því orðið mikil tímamót í þessum efnum á þessari önn sem er afar ánægjulegt. Þeir tíu nemendur sem hafa stundað nám í þriðja bekk í matreiðslu á þessari önn fara í sveinspróf þann 19. desember nk. og verður prófið í VMA.

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um sama nám í þriðja bekk strax eftir áramótin. Verði umsóknirnar nægilega margar verður þriðji bekkurinn sem sagt aftur á dagskrá á vorönn 2019. Það er því full ástæða fyrir alla þá sem uppfylla skilyrði til þess að fara í þriðja bekkinn að drífa í því að sækja um á vef Menntamálastofnunar. Því fyrr, því betra sem umsóknirnar berast.