Fara í efni

Rönning gefur VMA raflagnaefni

Starfsmenn Rönning með gjöfina til VMA.
Starfsmenn Rönning með gjöfina til VMA.

Umboðs- og heildverslunin Johan Rönning, sem er með starfsstöðvar víða um land, þar á meðal á Akureyri, hefur fært rafiðnbraut VMA að gjöf umtalsvert magn af raflagnaefni sem mun nýtast afar vel fyrir kennslu í grunnnámi rafiðna, að sögn Óskars Inga Sigurðssonar, brautarstjóra rafiðngreina. Um er að ræða búnað eins og tengla og rofa af ýmsum gerðum sem er nauðsynlegt að nota við kennslu.

Á sjöunda tug nemenda eru nú í grunnnámi rafiðna en það tekur fjórar annir. Þar af eru nú ríflega 40 nemendur á annarri önn og á þriðja tug nemenda á fjórðu önn. Eftir fjórðu önnina velja nemendur annað hvort að fara í rafvirkjun eða rafeindavirkjun. Tekið er inn í nám í rafeindavirkjun annað hvert ár og verður næsti hópur tekinn inn næsta haust.

Óskar Ingi brautarstjóri segir að jafnan velji töluvert fleiri að fara í rafvirkjun en rafeindavirkjun en aðeins sé unnt að taka inn fjórtán rafeindavirkjanema í einu, ekki sé mögulegt að taka inn fleiri nemendur í einu vegna plássleysis.

Allur gangur er á því hvort nemendur í rafvirkjun og rafeindavirkjun velja að taka einnig stúdentspróf. Þeir sem það gera standa sterkt að vígi horfi þeir til þess að fara í frekara tækninám. Þess eru þónokkur dæmi að nemendur útskrifist bæði sem rafvirkjar og rafeindavirkjar.