Fara í efni

Ritlistakvöld og smiðja á Lyst í kvöld

Á vegum Ungskálda verður efnt til ritlistakvölds og smiðju í kvöld, fimmtudaginn 2. mars, kl. 20:00 - 22:00 á Kaffi Lyst í Lystigarðinum á Akureyri. Leiðbeinandi er söngvaskáldið og tónlistarmaðurinn Svavar Knútur.

Til upprifjunar skal þess getið að á ári hverju er ritlistakeppni Ungskálda, sú eina sinnar tegundar á landinu. Þar eru allir sem áhuga hafa á ritlist hvattir til þess að taka þátt og senda inn hugverk sín. Ritlistakeppnin er jafnan undir lok árs og eru úrslit tilkynnt skömmu fyrir jól. Í keppninni á síðasta ári varð nemandi í VMA, Mars Baldurs, í fyrsta sæti með Smásöguna Þágufallssýki.

En Ungskáld standa ekki aðeins fyrir ritlistakeppni, heldur einnig ritlistakvöldum og smiðjum, eins og í kvöld á Lyst í Lystigarðinum, þar sem ungu fólki á aldrinum 16-25 ára gefst kostur á að koma saman og læra eitthvað nýtt á ritlistabrautinni, hitta aðra sem hafa ánægju af því að skrifa, kynnast verkum þeirra og lesa upp úr eigin verkum.

Þátttakendur sem hafa áhuga á að taka þátt í ritlistakvöldinu í kvöld eru beðnir að skrá sig hér. Veitingar verða í boði fyrir þá sem skrá sig.

Sambærilegt ritlistakvöld var haldið á Lyst 6. desember sl. og tókst mjög vel. Þangað mættu um þrjátíu manns. Þess er vænst að mætingin verði ekki síðri í kvöld.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, VMA, MA, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu. Verkefnið Ungskáld nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra og Akureyrarbæjar.