Fara í efni

Rætt um málefni ungs fólks á málþingi í Hofi miðvikudaginn 23. janúar

Málþingið verður í Hofi á morgun og hefst kl. 17.
Málþingið verður í Hofi á morgun og hefst kl. 17.

Unga fólkið okkar – hvert erum við að stefna, er yfirskrift málþings í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í dag, miðvikudaginn 23. janúar, kl. 17-19.  Að því standa Lögreglan á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, FÉLAK – félagsmiðstöðvar Akureyrarbæjar og Akureyrarbær – samfélagssvið.

Á fundi þann 19. nóvember sl. í Rósenborg á Akureyri var rætt um ýmis mál er tengjast ungu fólki á Akureyri, þar á meðal áfengis- og fíkniefnaneyslu ungmenna í framhaldsskólum. Á þeim fundi voru fulltrúar framhaldsskólanna á Akureyri, Barnaverndar Akureyrarbæjar, lögreglustjórinn á Akureyri, yfirlögregluþjónninn á Akureyri, sviðsstjóri samfélagssviðs Akureyrarbæjar, áfengis- og fíkniefnaráðgjafi bæjarins og félagsmála- og forvarnarfulltrúar Rósenborgar. Frásögn af þessum fundi er hér á heimasíðu VMA. Þar var m.a. rætt um að koma á málþingi fljótlega á nýju ári þar sem öllum væri boðið að koma og ræða málefni ungmenna frá ýmsum hliðum. Að þessu málþingi er komið núna.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur frá Rannsókn og greiningu, mun á málþinginu kynna niðurstöður rannsóknarinnar Ungt fólk á Akureyri. Einnig mun Jón Áki Jensson, geðlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri, ræða um orsakir og afleiðingar vímuefnanotkunar.

Að framsöguerindum loknum verða pallborðsumræður.

Ungmenni, foreldrar, fagfólk og allir sem áhuga hafa á þessum málefnum eru hvattir til þess að fjölmenna á málþingið í Hofi.