Fara í efni

Ótrúlegur stuðningur atvinnulífsins

Úr hófinu á málmiðnaðarbraut sl. föstudag.
Úr hófinu á málmiðnaðarbraut sl. föstudag.

„Við erum afskaplega þakklátir fyrir hversu vel fyrirtækin brugðust við þegar til þeirra var leitað með stuðning við málmiðnaðardeildina. En jafnframt eru það mikil vonbrigði og með hreinum ólíkindum hversu mikið fálæti ríkisvaldið sýnir skólanun með ónógum fjárveitingum sem gerir það að verkum að honum er ekki gert kleift að endurnýja sinn tækjabúnað,“ segir Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri. Síðastliðinn föstudag var efnt til hófs í húsnæði málmiðnaðardeildar VMA og til þess var boðið fulltrúum fyrirtækja sem hafa stutt deildina höfðinglega við annars vegar endurnýjun á TIG-suðuvélum og hins vegar fjármögnun og uppsetningu á hlaupaketti í húsnæði málmiðnaðardeildar.

„Atvinnulífið hér á svæðinu gerir sér fyllilega grein fyrir að Verkmenntaskólinn þarf að búa yfir besta mögulega tækjabúnaði á hverjum tíma. Það er hagur fyrirtækjanna að skólinn geti boðið nemendum sínum upp á góðan tækjabúnað í kennslunni. Þegar ríkið bregst hefur atvinnulífið brugðist svona vel við sem er alveg til fyrirmyndar. Staða skólans gagnvart ríkinu er hreinlega sorgleg. Í stað þess að atvinnulífið sé að hlaupa undir bagga til þess að halda í horfinu ætti það auðvitað að vera þannig að ríkið sjái skólanum fyrir þeim tækjabúnaði sem hann hefur þörf fyrir og síðan væri það atvinnulífsins að bæta í,“ segir Jóhann Rúnar Sigurðsson og bætir við að ódrepandi elju kennara við málmiðnaðardeildina við að efla hana megi ekki síst þakka að tekist hafi að afla stuðings allra þeirra fyrirtækja sem lögðu þessu málefni lið.

Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnaðarbrautar VMA, segir með ólíkindum hversu mikillar velvildar brautin njóti frá fyrirtækjum í nærumhverfinu. „Við erum afar þakklátir fyrir þann mikla og góða stuðning og velvilja sem fyrirtækin hafa sýnt okkur. Það var alveg sama til hverra við leituðum, allir voru tilbúnir að gefa okkur vinnu og efni og aðstoða okkur á allan hátt, Það er okkur mikils virði að hafa yfir að ráða góðum tækjabúnaði til þess að geta boðið nemendum okkur upp á góða kennslu með fyrsta flokks tækjabúnaði,“ segir Hörður og vill þakka Jóhanni Rúnari Sigurðssyni, formanni Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, sérstaklega fyrir hans þátt í að efla og styðja málmiðnaðardeildina.

Nú þegar er búið að koma fyrir og taka í notkun tólf splunkunýjar AC/DC TIG-suðuvélar í suðubásunum í húsnæði málmiðnaðarbrautar. Fyrirtækin sem lögðu því lið að kaupa þessar vélar voru: Slippurinn, Kælismiðjan Frost, N.Hansen, Vélsmiðja Steindórs, Norðurorka, Vélsmiðjan Vík Grenivík, SR vélaverkstæði Siglufirði og JE vélaverkstæði Siglufirði. Þá liðkaði JAK ehf., umboðsaðili AC/DC TIG-suðuvélanna á Íslandi, mjög fyrir kaupum á þeim með því að selja þær á afar hagstæðum kjörum.

Sömuleiðis er búið að koma upp nýjum hlaupaketti í húsnæði málmiðnaðardeildar. Ferrozink gaf efnið í smíðina, Straumrás gaf hlaupaköttinn, Útrás hannaði festingar á hlaupakettinum og Hamnar smiðja sá um uppsetningu á bitanum.

Í hófinu sem haldið var í húsnæði málmiðnaðarbrautar sl. föstudag bauð Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri upp á veglegar kaffiveitingar. Við það tækifæri fluttu ávörp Jóhann Rúnar Sigurðsson, Hörður Óskarsson, Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, Baldur Dýrfjörð, fulltrúi Norðurorku og Gústaf Adolf Hjaltason, verkefnastjóri hjá Iðunni fræðslusetri. Hilmar Friðjónsson tók þessar myndir í hófinu.

Sjónvarpsstöðin N4 fjallaði um þessar höfðinglegu gjafir og má hér sjá þá umfjöllun.