Fara í efni

Nýr hópur í pípulögnum

Hinrik með tólf af fjórtán nemendum sínum.
Hinrik með tólf af fjórtán nemendum sínum.

Hinrik Þórðarson er nýr kennari og umsjónarmaður náms í pípulögnum í VMA en á þessari önn byrjar fjórtán nemenda hópur nám og hófst kennslan í þessari viku. Elías Örn Óskarsson hefur í mörg undanfarin ár kennt fag- og bóknám í pípulögnum í VMA en hann ákvað að setja punktinn yfir i-ið þegar hann fylgdi síðasta námshópnum sínum í sveinspróf sl. vor.

Pípulagnir eru ein þeirra iðngreina sem heyra til byggingadeildar VMA. Þeir sem vilja fá starfsréttindi sem pípulagningamenn þurfa fyrst að hafa lokið grunndeild byggingagreina og geta síðan valið um að fara áfram í hinar ýmsu byggingagreinar, þar á meðal pípulagnir.

Hinrik hefur starfað sem pípulagningamaður á fjórða tug ára. Hann segir að þegar spurðist út að Elías Örn hefði ákveðið að láta staðar numið í að kenna pípulagnir hafi hann haft samband við VMA og lýst áhuga á að taka þetta verkefni að sér. Það hafði líka sitt að segja að Hinrik þekkti vel til Helga Vals Harðarsonar, brautarstjóra byggingadeildar VMA, en þeir höfðu unnið saman að lokaverkefni í námi í iðnfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Hinrik hóf að starfa í pípulögnum átján ára gamall. Val hans á þessari starfsgrein segir hann að megi fyrst og fremst rekja til þess að faðir hans hafi verið pípulagningameistari og það hafi auðveldað honum að komast á námssamning.  Námið tók Hinrik á sínum tíma í VMA en á þeim tíma segir hann að verklegi hlutinn hafi lítt eða ekkert verið kenndur í skólanum. Vinnubrögðin hafi því fyrst og fremst lærst undir handleiðslu meistara út á örkinni.

„Ég byrjaði að vinna við pípulagnir 1. apríl 1988. Ég lauk grunnskóla árið 1986 og vann síðan hjá Vatnsveitu Akureyrar frá 1. júní það ár til 1. apríl 1988, þegar ég fór á samning hjá pípulagnafyrirtækinu Karli og Þórði hf. Ég fór í námið hér í VMA upp úr 1990 og lauk grunnnáminu hér. Meistaranámið tók ég síðar. Eftir að Karl og Þórður hf. hættu rekstri á tíunda áratugnum vann ég um tíma hjá fyrirtækinu Framtaki, síðan Loka og loks hjá Bjarna Fannberg Jónassyni. Meistaraskólanum lauk ég árið 2003 og stofnaði mitt eigið fyrirtæki, HÞ-lagnir, tveimur árum síðar. Það rak ég til ársins 2017, hóf þá störf hjá fyrirtækinu Norðurlögnum og þar hef ég verið síðan,“ segir Hinrik.

Eftir að hafa starfað yfir þrjátíu ár í fullu starfi í pípulögnunum segir Hinrik að hann hafi talið tímabært að prófa eitthvað nýtt. Þegar þessi möguleiki hafi komið upp á borðið hafi honum fundist ástæða til þess að láta á þetta reyna. Að töluverðu leyti sé hann að kasta sér út í djúpu laugina, því um leið og hann kenni nemendum allt sem lýtur að pípulögnum leggi hann línur um hvernig hann byggi kennsluna upp, bæði verklega og bóklega, og móti námsefnið.

Aldur nemendanna fjórtán sem nú hefja nám í pípulögnum er breiður og bakgrunnur þeirra er ólíkur, sumir hafa lengi starfað í faginu en aðrir hafa minni reynslu að baki. Nemendur eru tvo heila daga í viku í skólanum, á mánudögum og þriðjudögum.