Fara í efni

Notkun QR-kóða í efnafræðikennslu skilar góðum árangri

Í grein hér á vefnun síðastliðinn föstudag var greint frá því hvernig svokallaðir QR-kóðar hafa verið felldir inn í endurútgefna kennslubók Kjartans Heiðberg í horna- og rúmfræði sem kennd er í VMA. Kóðarnir vísa til kennslumyndbanda, til frekari útskýringa á námsþáttum, sem Hilmar Friðjónsson, kennari hefur sérstaklega unnið fyrir þessa kennslubók.

Notkun QR-kóða í kennslu er ekki ný af nálinni í VMA því undanfarin fjögur ár hefur Árný I. Brynjarsdóttir notað QR-kóða í vinnubókum nemenda hennar í efnafræði í VMA. Eins og í áðurnefndri stærðfræðibók Kjartans Heiðberg er Árný með QR-kóða í þessum vinnubókum, sem hún hefur sett upp og verið að þróa undanfarin fjögur ár, sem vísa til kennslumyndbanda til frekari útskýringa á ýmsu sem nemendur eru að fast við í efnafræðinni. Flest eru þessi myndbönd á ensku en Árný segir að einnig sé unnt að finna nokkur myndbönd á íslensku á vefnum.

Árný segir að í eðli sínu megi e.t.v. segja að efnafræðin sé frekar þurr námsgrein og því sé mikils um vert að geta lífgað upp á kennsluna með því að nemendur geti sótt sér úrlausnir og frekari þekkingu í greininni á myndrænan hátt. Ekki síst sé mikilvægt fyrir þá nemendur sem glími við námsörðugleika af einhverju tagi, til dæmis lesblindu, að eiga þess kost að nálgast námsefnið einnig á þennan hátt. Árný segir að um efnafræðina gildi það sama og margt annað, að til þess að öðlast færni í viðfangsefninu sé mikilvægt að nemendur geti æft sig aftur og aftur og þar skipti myndböndin miklu máli, hægt sé að horfa á þau aftur og aftur.

„Þetta er ákveðin leið til þess að lífga upp á kennsluna og gera hana meira skapandi og um leið að ýta undir áhuga nemenda,“ segir Árný og bætir við að greinileg fylgni sé á milli notkunar nemenda á kennslumyndböndunum og einkunna þeirra í efnafræði. Með því að nýta sér þessa leið til þess að auka skilning og þekkingu á námsgreininni hafi nemendur hækkað einkunnir sínar og jafnframt hafi lækkað marktækt hlutfall þeirra sem falla í efnafræði.