Fara í efni

Horna- og rúmfræði með QR-kóðum

Endurútgefin kennslubók Kjartans með QR-kóðum.
Endurútgefin kennslubók Kjartans með QR-kóðum.

Fyrir um fimm árum sendi Kjartan Heiðberg, fyrrverandi stærðfræðikennari í VMA frá sér Sko - kennslubók í horna- og rúmfræði sem hefur síðan verið notuð með góðum árangri í VMA. Einnig hefur hann skrifað kennslubókina Upp á punkt – upprifjun grunnþátta í stærðfræði sem einnig er notuð í kennslu í VMA.

Í þessari viku var kennslubókin Sko endurútgefin með afar athyglisverðri viðbót sem eru svokallaðir QR-kóðar (Quick Response Code). Kóðarnir vísa til kennslumyndbanda sem vistuð er á Youtube sem útskýra betur það sem er verið að kenna í bókinni. Hilmar Friðjónsson kennari í VMA á heiðurinn af vinnslu þessara kennslumyndbanda sem hann hefur lagt ómælda vinnu í.

En hvernig virka QR-kóðar? Einfaldlega með því að bregða myndavél snjallsíma eða spjaldtölvu yfir kóðana. Á bak við hvern og einn þeirra eru myndbönd til frekari útskýringa eða glöggvunar. Með öðrum orðum eru kóðarnir bein tenging við myndböndin og því er vissulega um að ræða gagnvirka stærðfræðikennslu.

Hilmar Friðjónsson hefur í stærðfræðikennslu sinni lengi verið að þróa aðferðir til þess að nemendur gætu nýtt sér símana sína í náminu. Hann segir að árangurinn af þessari tilraunakennslu hafi hvatt sig til dáða í þessum efnum, reynslan hafi verið sú að með því að nota snjallsímana kvikni áhugi nemenda, einnig þeirra sem hafi átt í erfiðleikum með að tileinka sér stærðfræði.

Hilmar segir að með endurútgáfu bókar Kjartans um horna- og rúmfræði hafi opnast sá möguleiki að setja QR-kóða inn í bókina og tengja þannig myndbönd við námsefnið. Rúmfræðin sé myndræn og bjóði því einstaklega vel upp á slíka nálgun í kennslunni. Hilmar hafði áður fengið leyfi Guðrúnar Hafdísar Eiríksdóttur til þess að vinna slíkt margmiðlunarefni við kennslubók sem hún gaf út.

Á þessari önn munu Hilmar, Helga Jónasdóttir og Elín Björk Unnarsdóttir nota þessa nýju útgáfu kennslubókarinnar við kennslu í horna- og rúmfræði í VMA. Hilmar segir að líta verði á kennsluna á önninni sem ákveðið tilraunaverkefni, enda sé hér, eftir því sem næst verður komist, um að ræða nýjung í kennslubók í stærðfræði sem áhugavert verði að sjá hvernig virki.

Hilmar segir vandalaust fyrir nemendur að nálgast myndböndin í gegnum QR-kóðana. Með iPhone-símum sé það einfalt mál og hægt sé að ná í app fyrir Android síma sem les kóðana. Einnig nefnir Hilmar að í gegnum Snapchat forritið, sem flest ungt fólk hefur í símunum sínum, sé vandalaust að lesa kóðana.

Kjartan Heiðberg segist fagna því að kennslubók sín hafi verið endurútgefin með þeirri áhugaverðu og mikilsverðu viðbót sem QR-kóðarnir séu. „Kennslumyndbönd Hilmars gefa möguleika á alveg nýrri nálgun í stærðfræðikennslu, þau eru til þess fallin að skýra hlutina betur út fyrir nemendum og ekki síður er hér um að ræða frábæra leið til þess að auðvelda til dæmis foreldrum sem vilja rétta börnum sínum hjálparhönd við að skilja námsefnið betur. Með þessu er stærðfræðin kennd á gagnvirkan hátt og það skiptir verulegu máli að nýta sér tæknina með þessum hætti. Þetta er að mínu mati tær snilld og ég hef hvergi séð þetta gert í námsefni í stærðfræði,“ segir Kjartan og telur að þetta sé aðeins byrjunin, augljóslega sé hægt að nýta þessa tækni í kennslu í flestum bóknáms- og verknámsgreinum. „Ég er þess fullviss að þetta er bara byrjunin og það er sannarlega ánægjulegt að þetta skref sé tekið í VMA með útgáfu þessarar kennslubókar í stærðfræði,“ segir Kjartan sem er margreyndur kennari í stærðfræði. Hann er bæði grunnskóla- og framhaldsskólakennari og hafði kennt stærðfræði í tæpan áratug í VMA þegar hann lét af störfum vorið 2016.

Á þessu stigi málsins er bókin gefin út sem fjölrit en Kjartan segist vonast til þess að með þeirri reynslu sem fáist á þessari önn af notkun hennar og QR-kóðunum (kennslumyndböndunum) verði unnt fljótlega, vonandi næsta haust, að gefa bókina út á vandraðra formi til almennrar dreifingar.