Fara í efni

Myndverk Helenu Óskar á Safnasafninu - síðasta sýningarhelgi

Eitt af verkum Helenu Óskar á Safnasafninu.
Eitt af verkum Helenu Óskar á Safnasafninu.

Vorið 2019 lauk Helena Ósk Jónsdóttir námi af starfsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri. Hún hafði mikla ánægju af hestum og naut samvista við þá og ást sína á hestum túlkar hún á einstakan hátt í fjölbreyttri myndsköpun. Hér er frétt frá 3. maí 2019 á vef VMA þegar Helena Ósk, fjölskylda hennar og starfsfólk VMA kom saman í Þrúðvangi í VMA og skoðuðu listaverk Helenu.

Í sumar hafa verk Helenu Óskar verið til sýnis á Safnasafninu á Svalbarðsströnd, sem hluti af sumarsýningu safnsins. Nú fer hver að verða síðastur til þess að njóta þessarar sýningar því í hönd fer síðasta sýningarhelgin, safnið verður opið í dag, á morgun og síðasti sýningardagur er nk. sunnudag, 13. september. Opið er kl. 10-17. Allir þeir sem ekki hafa skoðað sumarsýningu Safnasafnsins eru hvattir til að drífa sig og njóta, af því verður enginn svikinn. Þessi flóra alþýðulistar á Íslandi er algjörlega einstök.

Hér má sjá nokkrar myndir af verkum Helenu Óskar á Safnasafninu og Arna G. Valsdóttir, kennari sem kenndi Helenu myndlist á sínum tíma í VMA, er hér á tali við stofnendur og eigendur Safnasafnsins, Níels Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur.