Fara í efni

Mikil upplifun

Írena Fönn Clemmensen á EuroSkills í Póllandi á dögunum. Myndina tók Harpa Birgisdóttir kennari í VM…
Írena Fönn Clemmensen á EuroSkills í Póllandi á dögunum. Myndina tók Harpa Birgisdóttir kennari í VMA sem var önnur tveggja þjálfara Írenu í undirbúningi keppninnar og á meðan á henni stóð í Gdansk.

Írena Fönn Clemmensen, sem brautskráðist úr hársnyrtiiðn í VMA vorið 2020, segir það hafa verið einstaka upplifun að keppa á EuroSkills 2023 - Evrópumóti iðn- og verkgreina í Gdansk í Póllandi á dögunum. Vissulega hafi verið verulega stressandi að vera á stóra sviðinu en hún muni aldrei sjá eftir því að hafa ákveðið að kasta sér út í djúpu laugina. Írena hvetur ungt fólk í námi í iðn- og verkgreinum að stefna á þátttöku í þessu móti í framtíðinni.

Eins og fram hefur komið sigraði Írena Fönn keppnina í hársnyrtiiðn á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sl. vor og tryggði sér þar með farseðilinn í keppnina í Gdansk.

„Þegar ég horfi til baka til EuroSkills held ég að það standi upp úr hversu mikil spenna fylgdi því að keppa. Þetta var mikil áskorun og upplifun fyrir mig og alla íslensku keppendurna. Ég gerði mér fyrst ljóst þegar ég kom á keppnisstað hversu risastór viðburður þetta er. Þá áttaði ég mig á því að sumir keppendur frá öðrum löndum höfðu undirbúið sig markvisst fyrir mótið í jafnvel nokkur ár en minn undirbúningur var í samanburðinum eins og dropi í hafið. Það má kannski líkja þessu við að litla Íslandi hafi nýlega verið búið að læra að synda en síðan hafi okkur verið hent í sjóinn! Keppninni fylgdi mikið stress og má segja að hún hafi kallað fram allar tilfinningar, svita, tár og blóð.
Það sem mér fannst hvað erfiðast var tímaramminn sem okkur var gefinn til þess að ljúka við okkar verkefni, hann var mikill stressvaldur. Engu að síður kom aldrei annað til greina en að klára, enda er ég mjög þrjósk og þrjóskan skilaði mér að lokum áttunda sætinu í hárinu og hæstu einkunn íslensku keppendanna. Ég get ekki annað en verið ánægð með niðurstöðuna,“ segir Írena.

Keppnin stóð í þrjá daga. Fyrsta daginn var keppt í permanenti, skeggi og rakstri og litun og klippingu herra, annan daginn var unnið með lifandi módel - uppgreiðslur, herrarakstur og klippingu og einnig var unnið með óhefðbundna greiðslu og þriðja daginn var litun og klipping dömu.

Írena er Norðfirðingur. Hún tók fyrstu fjórar annirnar í hársnyrtiiðn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað en kom í VMA haustið 2019 og brautskráðist vorið 2020. Samningstímann tók hún á Adelle hársnyrtistofu á Akureyri og lauk sveinsprófi í mars á síðasta ári.

Sem stendur er Írena að blása mæðinni í heimabænum Neskaupstað eftir keppnina í Póllandi en hyggst flytja í höfuðborgina í október.

„Ég hef ekkert ákveðið hvað tekur við þegar ég flyt suður en á mér ýmsa drauma sem kemur svo í ljós hvort verða að veruleika. Í það minnsta hef ég hug á að starfa í þessu fagi áfram. Ég get vel hugsað mér að opna einhvern tímann mína eigin stofu og það væri líka gaman að fá tækifæri til þess að kenna á námskeiðum. Við sjáum bara til hvað framtíðin leiðir í ljós. Mér finnst ágætt að hafa þetta spakmæli að leiðarljósi: Hafðu ekki áhyggjur af morgundeginum því hann hefur sínar eigin áhyggjur.
Ég mæli hiklaust með því að ungt fólk í iðngreinum stefni á EuroSkills en ég tel nauðsynlegt, í ljósi reynslunnar frá þessari keppni, að Íslandsmótið sé haldið í það minnsta ári á undan EuroSkills og þannig gefist lengri tími til undirbúnings keppenda en nú er,“ segir Írena Fönn Clemmensen.