Fara í efni

Með mörg járn í eldinum

Viktor Hugi Júlíusson við akrýlverkið sitt í VMA.
Viktor Hugi Júlíusson við akrýlverkið sitt í VMA.

Óhætt er að segja að Dalvíkingurinn Viktor Hugi Júlíusson sé með mörg járn í eldinum. Hann stundar nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA og lýkur því í vor, semur tónlist og er fimleika- og parkourþjálfari á Dalvík. Hin daglega stundaskrá er því vel pökkuð. Frá því Viktor hóf nám í VMA hefur hann farið daglega á milli Dalvíkur og Akureyrar. Almennt segir hann það ekkert mál en bætir þó við að í vetur hafi veðurguðirnir oft verið honum erfiðir.

Viktor segir snemma hafa komið í ljós að hann myndi fást við einhvers konar sköpun í námi. Í Dalvíkurskóla hafi hann haft áhuga á teikningu og síðan hafi áhuginn beinst að ljósmyndum og myndbandagerð. Þegar kom að því að velja námsbraut í framhaldsskóla segir Viktor að listnáms- og hönnunarbraut VMA hafi strax verið efst á blaði og hann sjái ekki eftir því að hafa valið hana. Kosturinn við hana sé mikil fjölbreytni, nemendur fái að prófa sig áfram á ólíkum sviðum og kennararnir ýti undir að nemendur gefi sköpunarþránni lausan tauminn og finni þannig sína réttu hillu. Viktor segir að það hafi komið honum skemmtilega á óvart hversu áhugaverður ferillinn frá hugmynd að lokaútkomu sé.

Undanfarin ár hefur Viktor unnið að tónlistarsköpun með félaga sínum, Árna Birni Sigurbergssyni, sem kemur frá Hauganesi og stundar nám á viðskipta- og hagfræðibraut VMA. Viktor upplýsir að þeir félagarnir séu nú að vinna tónlist sem stefnt sé að því að fari á Spotify síðar á þessu ári. Tónlistin, sem Viktor segir að sé af ýmsum toga, er unnin í tölvum. Hann segist ekki hafa lært á hljóðfæri, fyrr en á undanförnum vikum. Hann fékk að kassagítar í jólagjöf og hefur verið að læra gripin af youtube myndböndum. Auk þess að vinna heila plötu segir Viktor að lokaverkefni hans á listnáms- og hönnunarbrautinni verði nýtt lag sem hann hefur verið að semja og gerð tónlistarmyndbands við það. Texti lagsins, sem Viktor segist hafa samið á ensku, fjallar um sýn hans á heiminn í fortíð, nútíð og framtíð. Hann útilokar ekki að lokaútgáfa lagsins verði með íslenskum texta.

Áður en Viktor fór á listnáms- og hönnunarbraut hafði hann ekki reynslu af málun en hann segir að hann hafi haft mikla ánægju af því að prófa sig áfram í myndlistinni. Hér má sjá akrýlverk sem hann gerði í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur. Þessar myndir tóku miklum breytingum í ferlinu, fjölmargar skissur voru gerðar og síðan var hugmyndin unnin áfram í tölvu áður en hún endaði á striganum með þessari útkomu. Viktor segir að grunnhugsunin í verkinu sé óskilgreindur unglingur sem glími við kvíða og depurð. Út úr andlitinu megi greina þyngsli.

En hvað ætlar Viktor að gera að loknu stúdentsprófi frá VMA? Það er óvíst, segir hann. Grafísk hönnun hafi lengi verið ofarlega á blaði en nú sé stefnan sett á arkitektúr. Það kunni þó mögulega að breytast, eins og staðan er núna horfi hann til þess að taka sér frí frá námi og fara út á vinnumarkaðinn – áður en aftur verði farið í skóla, mögulega í útlöndum.