Fara í efni

Maður er stöðugt að læra

Jóhann Hjaltdal Þorsteinsson.
Jóhann Hjaltdal Þorsteinsson.

„Ég kann mjög vel við kennsluna hér og fyrir mig hefur þetta verið mikið lærdómsferli. Maður er stöðugt að læra og ég er á því að sá kennari sem telur sig vera fullnuma í sínum fræðum ætti að finna sér eitthvað annað að gera,“ segir Jóhann Hjaltdal Þorsteinsson, keinn af kennurum byggingadeildar VMA, en hann hefur kennt í VMA síðan 2017. Í byrjun kenndi hann nemendum á starfsbraut skólans en kennir nú húsasmíðanemum.

Fyrir um þrjátíu árum var Jóhann sjálfur nemandi í húsasmíði í VMA, í það nám fór hann strax að loknum grunnskóla. „Ég tók húsasmíðina, fór á samning og lauk sveinsprófi. Ég hélt síðan áfram í námi og lauk stúdentsprófi úr undirbúnings- og raungreinadeild Tækniskólans, eins og hún hét þá. Að því loknu kenndi ég í einn vetur sem leiðbeinandi í Hafralækjarskóla og fór síðan í Kennaraháskólann. Þar lauk ég grunnskólakennararéttindum og tók sem valgreinar smíðakennslu og ensku. Í kjölfarið kenndi ég í mörg ár og var einnig í æskulýðsstarfi og leiðtogaþjálfun hjá KFUM og K. Ég tók síðan meistaranám við Háskólann á Akureyri í menntunarfræði, til hliðar við kennslu og störf mín fyrir KFUM. Á þessum tíma var nýtt 200 fermetra hús byggt á Hólavatni og við þá byggingu starfaði ég með öðru í nokkur ár. Sú vinna kveikti áhuga minn aftur á húsasmíðinni og úr varð að ég ákvað að fara í fjarnám hér í VMA og afla mér meistararéttinda í húsasmíði, en ég hef alltaf eitthvað verið að smíða samhliða öðrum störfum frá því ég lauk sveinsprófi.
Þegar auglýst var staða á starfsbraut VMA sótti ég um og fékk hana. Meðal annars gafst mér tækifæri til þess að fylgja nemendum af starfsbraut í smíðar hér í byggingadeildinni og þá læddist að mér sú hugmynd að e.t.v. væri gaman að fara í kennslu hér,“ segir Jóhann og úr varð að hann fór alfarið að kenna verðandi húsasmiðum.

Jóhann er tölvuáhugamaður og hefur síðustu tvö skólaár verið svokallaður UT-mentor í VMA. „Ég hef lengi haft áhuga á ýmsu er lýtur að tölvum og í grunnskólakennslunni kenndi ég gjarnan upplýsingatækni. Á þeim tíma sem ég var í námi í Kennaraháskólanum var mikil bylting í námsefnisgerð og í nýrri námskrá var gerð tilraun með að láta hönnun og smíði renna saman við tölvutæknina. Þessa þekkingu nýtti ég mér áfram eftir að ég fór að kenna hér fyrir norðan og notaði t.d. í kennslu á unglingastigi í Oddeyrarskóla með nýjan CNC fræsara, þann fyrsta sem var keyptur í grunnskóla á Akureyri.“

Í byggingadeild VMA segist Jóhann fást við margvíslega kennslu. „Í grunndeildinni læra nemendur notkun handverkfæra, vélavinnu á verkstæði, spónlagningu, innréttingasmíði og ýmislegt fleira. Í framhaldsdeildinni fá nemendur síðan tækifæri til þess að byggja sumarhús og á fimmtu og síðustu önn glíma þeir meira við sjálfstæð verkefni, læra að lesa úr teikningum o.fl. Í stórum dráttum finnst mér fyrirkomulag námsins vera í ágætum farvegi og það er mikilvægt að við eigum gott samstarf við atvinnulífið hér eftir sem hingað til. Það er nemendum ákaflega dýrmætt að fá tækifæri til þess að vinna að svo viðamiklu og flóknu verkefni sem smíði sumarhúss er,“ segir Jóhann en auk kennslunnar í dagskóla kennir hann nemendum í kvöldskóla í húsasmíði grunnteikningu núna á haustönn.