Fara í efni

Maður á aldrei að segja aldrei

Páll Viðar Árnason.
Páll Viðar Árnason.

Ekki aðeins fara nemendur í hinum ólíku verknámsgreinum beint út á vinnumarkaðinn að loknu námi í VMA. Margir fara áfram í frekara nám í t.d. tækni- og verkfræðigreinum. Nýverið var sagt frá því hér á heimasíðunni að nemendur sem eru að ljúka rafeindavirkjun núna um jólin hafa tekið stefnuna á hátækniverkfræði að loknu stúdentsprófi. Og mörg fleiri dæmi eru um þetta. Eitt þeirra er Páll Viðar Árnason sem brautskráðist sem rafvirki frá VMA fyrir fimm árum og tók í framhaldinu stúdentspróf. Núna er hann á lokasprettinum í rafmagns- og tölvuverkfræði í Háskóla Íslands – stefnir á BS-próf í vor.

Páll Viðar er Akureyringur, fæddur 1991. Hann rifjar upp að þegar hann fór úr Lundarskóla í VMA á sínum tíma hafi hann í raun haft eitt bærilega vel á hreinu, að fara ekki í hreint bóknám. Hann var til að byrja með á almennri braut í VMA en fór síðan í rafvirkjun, sem hann segir að hafi á margan hátt verið hrein tilviljun. Rafvirkjuninni lauk hann um jólin 2012 og stúdentsprófi ári síðar. Hann segist hafa tekið eina önn í Tækniskólanum í Reykjavík og einnig tekið nokkur fög í fjarnámi frá VMA og þannig klárað stúdentsprófið.
Haustið 2014 ákvað Páll síðan að fara í rafmagns- og tölvuverkfræði í HÍ. Sem fyrr segir hann að tilviljun hafi ráðið því að hann fór í þetta nám og sannast sagna hafi hann aldrei horft til þess að fara í háskóla. En hann gerði það samt og sér síður en svo eftir því. Eins og vera ber segir hann að námið hafi verið mjög krefjandi en öllu máli skipti að hafa ómældan áhuga á viðfangsefninu. „Lærdómurinn sem ég hef fyrst og fremst dregið af þessu er að maður á aldrei að segja aldrei. Ég hafði ekki leitt hugann að því að fara í háskólanám en hér er ég og líkar þetta vel,“ segir Páll Viðar og svarar því játandi að næstu daga hefjist prófatörnin. Hann nefnir að hann sé m.a. að fara í próf í merkjafræði og annað viðfangsefni sem hann glími við núna sé hönnun háspennulína. Verkefnin séu því í senn áhugaverð og krefjandi.
Páll Viðar segir að það hafi komið sér vel að hafa farið í rafvirkjunina í VMA á sínum tíma og klárað sveinspróf í framhaldinu. Fyrir vikið hafi hann ekki verið í vandræðum með sumarstörf jafnliða náminu í HÍ.
En hann hyggst ekki láta staðar numið eftir BS-próf í rafmagns- og tölvuverkfræði í HÍ. Hann sé með í undirbúningi framhaldsnám erlendis og horfi í því sambandi til Danmerkur eða Svíþjóðar.
Páll Viðar lætur þess getið að hann sé ekki eini rafvirkinn í rafmagns- og tölvuverkfræði í HÍ, hann viti um fjóra eða fimm sem hafi farið þá leið auk stúdentsprófs í framhaldsskóla.