Fara í efni

Leikskólakrakkar á Lundarseli/Pálmholti í heimsókn

Kátir krakkar frá leikskólanum Lundarseli.
Kátir krakkar frá leikskólanum Lundarseli.

Áhuginn og gleðin skein úr hverju andliti krakkanna á leikskólanum Lundarseli/Pálmholti á Akureyri sem heimsóttu VMA í vikunni og fengu að kynnast starfinu á fjórum námsbrautum - byggingadeild, rafvirkjun, sjúkraliðabraut og hársnyrtiiðn. Stelpurnar kynntu sér námsbrautir sem í gegnum tíðina hafa verið vinsælli hjá strákum og strákarnir að sama skapi kynntu sér starfsemi námsbrauta sem hafa jafnan verið vinsælli hjá stelpum.

Árið 2016 stóð Jafnréttisstofa fyrir verkefni sem var kallað Rjúfum hefðirnar, sem hafði að markmiði að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk karla og kvenna. Á Akureyri tóku þátt í verkefninu Lundarsel, Oddeyrarskóli, VMA, Háskólinn á Akureyri, öldrunarstofnanir Akureyrar og Slippurinn Akureyri.

Í tengslum við þetta verkefni á sínum tíma komu krakkar í Lundarseli/Pálmholti í heimsókn í VMA en eins og í svo mörgu öðru féllu slíkar heimsóknir niður í kóvidfaraldrinum. En nú komu krakkarnir á Lundarseli, sem hefja nám í grunnskóla í haust, og starfsmenn á leikskólanum í heimsókn aftur í VMA og hún var sannarlega ánægjuleg. Þessar myndir voru teknar af krökkunum og áhuginn leynir sér ekki. 

Starfsmenn Lundarsels/Pálmholts lýstu ánægju með heimsóknina og sögðu hana passa vel inn í það sem unnið væri markvisst með á leikskólanum, heimspeki og jafnrétti.