Fara í efni

Lundarselskrakkar kynntu sér nám í VMA

Hressir Lundarselsstrákar á hársnyrtibraut VMA.
Hressir Lundarselsstrákar á hársnyrtibraut VMA.

Liður í verkefninu Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir sem VMA tekur þátt í og hefur að markmiði að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk karla og kvenna, var heimsókn barna af leikskólanum Lundarseli á Akureyri í VMA í gær. Verkefnið, sem er stýrt af Jafnréttisstofu, hófst sl. haust og lýkur á næsta ári.

Eins og komið hefur fram tekur verkefnið til nokkurra fyrirtækja og stofnana á Akureyri. Öll skólastig taka þátt í því; leikskólinn Lundarsel, Oddeyrarskóli, VMA og Háskólinn á Akureyri. Einnig taka Öldrunarstofnanir Akureyrar þátt og sömuleiðis Slippurinn Akureyri.

Jafnréttisstofa hefur umsjón með verkefninu sem hefur það að markmiði að stuðla að jafnrétti kynjanna í menntun, starfsþjálfun og ráðgjöf, brjóta upp kynbundnar staðalmyndir í náms- og starfsvali, vekja áhuga kvenna á hefðbundnum karlastörfum og vekja áhuga karla á hefðbundnum kvennastörfum. Áætlað er að verkefninu ljúki haustið 2018 með málþingi, þar sem dregnar verða saman niðurstöður þess og árangurinn metinn.

Í gær heimsóttu krakkar af leikskólanum Lundarseli á Akureyri VMA og kynntu strákarnir sér hársnyrtiiðn og sjúkraliðabraut sérstaklega en á báðum námsbrautum hafa konur verið í miklum meirihluta nemenda. Að sama skapi kynntu stelpur af Lundarseli sér starfsemi námsbrauta þar sem karlar hafa verið í miklum meirihluta. Ekki fór á milli mála að leikskólakrakkarnir höfðu mikla ánægju af heimsókninni og e.t.v. hafa einhver barnanna færst nær svari við þeirri spurningu hvað þau ætli að verða þegar þau verða stór.