Fara í efni  

Lundarselskrakkar kynntu sér nám í VMA

Lundarselskrakkar kynntu sér nám í VMA
Hressir Lundarselsstrákar á hársnyrtibraut VMA.

Liður í verkefninu Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir sem VMA tekur þátt í og hefur að markmiði að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk karla og kvenna, var heimsókn barna af leikskólanum Lundarseli á Akureyri í VMA í gær. Verkefnið, sem er stýrt af Jafnréttisstofu, hófst sl. haust og lýkur á næsta ári.

Eins og komið hefur fram tekur verkefnið til nokkurra fyrirtækja og stofnana á Akureyri. Öll skólastig taka þátt í því; leikskólinn Lundarsel, Oddeyrarskóli, VMA og Háskólinn á Akureyri. Einnig taka Öldrunarstofnanir Akureyrar þátt og sömuleiðis Slippurinn Akureyri.

Jafnréttisstofa hefur umsjón með verkefninu sem hefur það að markmiði að stuðla að jafnrétti kynjanna í menntun, starfsþjálfun og ráðgjöf, brjóta upp kynbundnar staðalmyndir í náms- og starfsvali, vekja áhuga kvenna á hefðbundnum karlastörfum og vekja áhuga karla á hefðbundnum kvennastörfum. Áætlað er að verkefninu ljúki haustið 2018 með málþingi, þar sem dregnar verða saman niðurstöður þess og árangurinn metinn.

Í gær heimsóttu krakkar af leikskólanum Lundarseli á Akureyri VMA og kynntu strákarnir sér hársnyrtiiðn og sjúkraliðabraut sérstaklega en á báðum námsbrautum hafa konur verið í miklum meirihluta nemenda. Að sama skapi kynntu stelpur af Lundarseli sér starfsemi námsbrauta þar sem karlar hafa verið í miklum meirihluta. Ekki fór á milli mála að leikskólakrakkarnir höfðu mikla ánægju af heimsókninni og e.t.v. hafa einhver barnanna færst nær svari við þeirri spurningu hvað þau ætli að verða þegar þau verða stór.


Getum við bætt efni síðunnar?

VERKMENNTASKÓLINN Á AKUREYRI

Skrifstofa VMA er opin alla virka daga frá kl. 08:00 - 15:00, nema föstudaga frá kl 08:00-13:00.