Fara í efni

Leikhópurinn í Trölli stillir saman strengi

Fyrsta samverustund leikhópsins með leikstjóra.
Fyrsta samverustund leikhópsins með leikstjóra.

Búið er að velja fólk til þess að fara með hlutverk í leikritinu Trölli sem Leikfélag VMA setur upp á vorönn. Leikhópurinn kom saman í fyrsta skipti síðastliðinn mánudag.

Eins og komið hefur fram er um að ræða nýja leikgerð Jokku G. Birnudóttur og Kolbrúnar Lilju Guðnadóttur á kvikmyndinni Trolls og er óhætt að segja að um sé að ræða viðamikið og metnaðarfullt verkefni. Og það sem gerir verkefnið sérstaklega áhugavert er sú staðreynd að þetta er í fyrsta skipti sem leikritið er sett á svið hér á landi.

Kolbrún Lilja, annar handritshöfunda og leikstjóri sýningarinnar, segir að fyrsta útgáfa handritsins sé nú tilbúin og búið sé að samlesa það einu sinni, þó ekki af leikhópnum, og textinn virki vel. Það sé þó ljóst að handritið muni taka einhverjum breytingum á æfingatímanum.

Ellefu leikararar voru valdir til þess að leika í sýningunni en yfir tuttugu manns komu í prufur. Kolbrún Lilja sagði að valið hafi verið mjög erfitt enda sterkur hópur sem kom í prufur. Þó svo að búið sé að velja leikhópinn á eftir að skipa þeim í hlutverk, það segir leikstjórinn að verði gert eftir að hún kynnist leikhópnum betur. Til þess gefst tækifæri á næstunni því til að byrja með verður Kolbrún Lilja með námskeið fyrir leikhópinn, sem í raun er byrjunin á æfingaferlinu, en meiri kraftur verður þó settur í æfingar eftir áramót. „Það voru líka margir sem skráðu sig í ýmislegt annað en að leika. Hópurinn sem kemur að þessu er mjög flottur. Ég veit að það klisjukennt að segja þetta en það var bara mjög erfitt að velja leikhópinn,“ sagði Kolbrún Lilja en í honum er góð blanda af reynslufólki og óreyndum leikurum. Auk leikhópsins kemur stór hópur fólks að sýningunni og það er ennþá pláss fyrir gott fólk sem hefur áhuga á að taka þátt í undirbúningi sýningarinnar Tröll á vorönn.