Fara í efni

Tröll verður leiksýning Leikfélags VMA í vetur

Þá liggur fyrir að Leikfélag VMA mun í vetur setja upp leikritið Tröll, sem er splunkuný leikgerð Jokku G. Birnudóttur og Kolbrúnar Lilju Guðnadóttur á kvikmyndinni Trolls. Frá þessu var greint í Gryfjunni í gær í tengslum við nýnemahátíð skólans.

Þess er ávallt beðið með nokkurri eftirvæntingu hvaða leikrit verður tekið til sýninga á komandi vetri. Undanfarin ár hefur Leikfélag VMA sett upp metnaðarfullar sýningar – Bugsý Malón sl. vetur, Ávaxtakörfuna veturinn 2017-2018 og Litlu hryllingsbúðina 2016-2017. Allar eiga þessar sýningar það sameiginlegt að tónlistin hefur verið stór þáttur. Og sýning vetrarins, Tröll, er þar engin undantekning. Eins og í kvikmyndinni Trolls verða flutt fjölmörg þekkt lög, bæði nýleg og eldri. Nægir þar að nefna smell Justins Timberlake Can’t Stop the Feeling, sem hann samdi fyrir myndina og hann er sömuleiðis í einu aðalhlutverkanna í myndinni. Kvikmyndin Trolls var frumsýnd árið 2016 og er tölvugerð ævintýramynd sem byggir á sögu eftir Erica Rivinoja. Framhaldsmynd, sem mun heita á ensku Trolls World Tour, verður frumsýnd í Bandaríkjunum í apríl á næsta ári.

Leikfélag VMA ræðst sem sagt ekki á lágan garð, frekar en fyrri daginn. Verkefnið er spennandi, ekki síst vegna þess að þetta verk hefur ekki áður verið sett upp á svið hér á landi.

Sumrinu hafa Jokka og Kolbrún Lilja varið að hluta í að skrifa leikgerðina og er sú vinna langt komin. Kolbrún Lilja, sem mun leikstýra verkinu, segir þó að handritið muni taka breytingum í meðförum leikhópsins. Hann komi til með að setja sitt mark á uppsetninguna og hún muni því án nokkurs vafa þróast mikið á æfingatímanum. Gert er ráð fyrir að valið verði í hlutverk í október og í kjölfarið hefst æfingaferlið. Kolbrún Lilja segist á þessu stigi málsins ekki geta sagt til um hversu margir leikarar verði í sýningunni en að öllu samanlögðu komi margir að sýningunni, til dæmis þurfi mikla vinnu að leggja í búninga, leikmuni o.fl. Frumsýning verður í febrúar 2020 í Menningarhúsinu Hofi.

En hver er leikstjórinn Kolbrún Lilja Guðnadóttir? Hún er fædd og uppalin á Selfossi og tók strax á unglingsaldri þátt í uppfærslum Leikfélags Selfoss. Hún var í framhaldsskóla á Selfossi og síðan í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún fór síðan fljótlega eftir framhaldsskóla til New York og nam þar leiklist í eitt ár, 2015-2016. Síðan hefur Kolbrún Lilja komið að leiklist á einn eða annan hátt, haldið fjölda leiklistarnámskeiða og sjálfstyrkingarnámskeiða og verið með hópefli. Hún flutti til Akureyrar í febrúar sl. og lék í uppfærslu Péturs Guðjónssonar í Hofi á Fullkomnu brúðkaupi. Og nú tekur Kolbrún Lilja næsta skrefið – að leikstýra. Tröll verður frumraun hennar í því að stýra uppfærslu á viðamikilli leiksýningu. „Þetta er óneitanlega mikil áskorun, ég er í senn mjög spennt og pínu stressuð, sem ég held að sé alveg eðlilegt,“ segir Kolbrún Lilja. Hún segist horfa til þess að sýningin verði fyrir alla fjölskylduna, rétt eins og kvikmyndin Trolls. „Ég held að þetta verði heilmikið partý fyrir bæði leikhópinn og áhorfendur. Ég hef nokkuð mótaðar hugmyndir í kollinum um hverning sýningin kemur til með að líta út en ég vil engu að síður ekki festa mig of mikið í ákveðnum hugmyndum því mig langar að leikhópurinn fái að setja sitt mark á verkið.  Mögulega verður sýningin, þegar upp verður staðið, allt önnur en ég sé hana fyrir mér núna. Það verður mjög gaman að sjá hvað út úr þessu kemur, ég er mjög spennt fyrir æfingaferlinu. Ég hvet sem flesta til þess að koma í prufur, sem ég reikna með að verði um miðjan október. Það verður rækilega auglýst þegar nær dregur,“ segir Kolbrún Lilja Guðnadóttir.