Fara í efni

Kynntu sér óhefðbundnar leiðir við byggingu íbúðarhúss í Eyjafjarðarsveit

Þakviðirnir í húsið komu tilsniðnir frá Ítalíu.
Þakviðirnir í húsið komu tilsniðnir frá Ítalíu.

Er mögulegt að nýta ullina af íslensku sauðkindinni í einangrun húsa – í stað steinullar? Þetta var ein af mörgum spurningum sem vöknuðu þegar nemendur í kvöldskóla VMA í húsasmíði ásamt kennurum í byggingadeildinni heimsóttu í liðinni viku Theodór Kr. Gunnarsson og Juliu Gunnarsson sem nú eru að byggja sér tæplega 185 fermetra einbýlishús í landi Bjarkar í Eyjafjarðarsveit, sem þau kalla Vörðu. Í byggingunni er um margt farnar mjög nýstárlegar leiðir, m.a. er kindaull frá Þýskalandi notuð til einangrunar í bæði útveggjum og þaki. Hér eru myndir sem voru teknar í heimsókninn í Vörðu. Einnig eru hér teikningar af húsinu og myndir teknar á mismunandi byggingarstigi.

Húsið er á einni hæð, fimm herbergja, með valmaþaki og útveggi úr timbureiningum sem eru fingraðir saman. Steypan í sökklinum er þeim eiginleikum gædd að í stað steypustyrktarjárns eru notaðar koltrefjastangir til þess að binda steypuna saman. Með þessu sparaðist mikil vinna við járnabindingu. Heildarkostnaður við tréfjarnar í sökkul og gólfplötu var um 200 þúsund krónur. Gólfhiti er í votrýmum en að öðru leyti er hitalögnin innbyggð í veggjaklæðninguna. Þakviðir hússins eru mjög voldugir, tilsniðnir og koma frá Ítalíu. Í stað þess að nota gifsplötur í milliveggi, eins og algengast hefur verið síðustu ár, eru notaðar leirplötur.

Allt timbur í húsið kom tilsniðið og var búið að fræsa fyrir lögnum. Þakviðirnar voru sagaðir í gráðum og lengdum. Í þaki er kindaull til einangrunar og einnig er m.a. notaðar trétrefjaplötur. Lögð er mikil áhersla á öndun hússins, að það geti loftað sig út í gegn. Einnig var mikið lagt upp úr umhverfisþættinum og að lágmarka segulsvið lagna með því t.d. að jarðtengja rafmagnsdósir, álskerma rafmagnskapla og setja koparnet í innveggi svefnherbergja. Val á byggingarefnum í húsinu hefur haft þann græna þráð að lágmarka kolefnissporið eins og kostur er.

Theodór og Julia hafa búið á Akureyri undanfarin ár, hér er viðtal sem birtist við Theodór hér á heimasíðu VMA í nóvember árið 2018. Tengsl þeirra við Þýskaland eru rík og þangað hafa þau sótt innblástur og efni í nýja húsið, sem þau stefna á að flytja í á fyrrihluta næsta árs.

Heimsókn í Börk hf. á Akureyri

Auk þess að kynna sér þetta nýstárlega hús í Eyjafjarðarsveit heimsóttu nemendur í kvöldskóla í húsasmíði Trésmiðjuna Börk á Akureyri, sem er eitt af leiðandi fyrirtækjum í landinu í smíði á gluggum og hurðum. Hér eru myndir sem voru teknar við það tækifæri. Eyjólfur Ívarsson sýndi ferilinn í framleiðslu fyrirtækisins á afar fróðlegan og skemmtilegan hátt.

Byggingadeild VMA er á þessari önn í góðu samstarfi við Börk í tengslum við smíði sumarhússins. Hurðir í húsið eru framleiddar af Berki og efni í gluggana fær byggingadeildin hjá Berki og síðan smíða nemendur í kvöldskólanum úr því glugga í húsið.