Fara í efni

Kvöldnám í rafvirkjun í fyrsta skipti

Þrettán nemendur eru í fyrsta námshópnum.
Þrettán nemendur eru í fyrsta námshópnum.

Núna á vorönn býður VMA í fyrsta skipti upp á kvöldnám í rafvirkjun. Kennt er síðdegis fjóra daga í viku, frá mánudegi til fimmtudags. Þrettán nemendur eru í þessum fyrsta námshópi kvöldskólans en um fjörutíu umsóknir bárust.

Haukur Eiríksson, brautarstjóri rafiðnbrautar VMA, segir mjög ánægjulegt að unnt hafi verið að stíga þetta skref. Í ljósi margra umsókna hafi verið mikil þörf fyrir þetta nám. Það var kynnt hér á heimasíðu skólans í nóvember sl. og viðbrögðin létu ekki á sér standa.

Haukur segir að námið sé þannig sett upp að nemendahópnum verði fylgt eftir til loka og síðan verði tekinn inn nýr hópur. Gangi áætlanir eftir sé horft til þess að þessir nemendur ljúki námi sínu í desember 2024 og að óbreyttu komi nýr hópur inn á vorönn 2025. Haukur segist vænta þess að þetta nám sé komið til að vera, enda sé rík þörf fyrir fleiri útskrifaða rafvirkja.

Bakgrunnur nemendanna þrettán er mismunandi en margir hafa þegar lokið því bóknámi sem áskilið er til þess að ljúka rafvirkjun. Margir hafa umtalsverða starfsreynslu í faginu en hafa ekki haft tækifæri til þess að fara í nám og fá starfsréttindi. Áherslan í kvöldskólanum er því á faggreinarnar og á fyrstu tveimur önnunum verður námsyfirferðin tvöföld á við það sem er í dagskóla. Á síðari tveimur önnunum segir Haukur við það miðað að t.d. útskrifaðir rafeindavirkjar, sem vilja bæta við sig rafvirkjun, geti komið inn á námið, enda taka rafvirkjar og rafeindavirkjar sama grunnnámið.