Fara í efni

Kennsla í dagskóla hefst í dag - síðasti dagur umsókna um fjarnám á vorönn

Kennsla í dagskóla í VMA hefst í dag, 10. janúar.
Kennsla í dagskóla í VMA hefst í dag, 10. janúar.

Sem næst níu hundruð nemendur eru skráðir til náms á vorönn í VMA. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá í dag, 10. janúar.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að kennsla hæfist 6. janúar sl. en í ljósi þeirrar miklu covid-bylgju sem tók að herja á landsmenn undir lok síðasta árs var ákveðið að færa skólabyrjun aftur um fjóra daga. Eins og hefur komið fram hér á heimasíðunni eru töflubreytingar til hádegis nk. miðvikudag, 12. janúar.

Níu nemendur í bifvélavirkjun koma nú aftur inn í skólann. Áður höfðu þeir lokið grunnámi í málmiðn og tveggja anna fagnámi. Námið er í samstarfi VMA og Borgarholtsskóla í Reykjavík.

Vegna mikillar aðsóknar fer af stað núna á vorönn nýr nemendurhópur í hársnyrtiiðn – og verða þá þrír námshópar í faginu í skólanum – á fyrstu, fjórðu og sjöttu önn.

Ekki liggur fyrir hversu margir stunda fjarnám á þessari önn en fyrir helgina voru umsóknir farnar að nálgast þrjú hundruð. Það skal undirstrikað að umsóknarfrestur um fjarnám á vorönn er til miðnættis í kvöld en fyrir löngu er orðið fullbókað í meistaraskólann – nám fyrir iðnmeistara. Kennsla fjarnema hefst að viku liðinni, mánudaginn 17. janúar.

Á vorönn verður boðið upp á dreifnám í rafvirkjun fyrir vélstjóra. Námið er byggt upp á námslotum og á milli þeirra stunda nemendur það í fjarnámi.