Fara í efni

Íslenska soðningin óþekkt í Sýrlandi!

Reem Almohammad.
Reem Almohammad.
Það voru ekki lítil viðbrigði fyrir Reem Almohammad þegar hún kom til Akureyrar í hópi sýrlenskra flóttamanna í janúar 2016 - í kulda, snjó og skammdegi. Hún hafði neyðst til að yfirgefa heimalandið vegna styrjaldarinnar og heimaborgin hennar, Aleppo, var meira og minna sprengd í tætlur. Til Akureyrar kom Reem með fjölskyldu sinni og fleiri sýrlenskum flóttamönnum og hefur búið þar síðan. Hún stundar nám í Verkmenntaskólanum og kann því vel.
 
Þetta er annað heila skólaárið sem Reem stundar nám í VMA. Henni hefur farið ótrúlega mikið fram í íslenskunni enda leggur hún sig alla fram. Hún segist skilja um það bil 60% af því sem við hana er sagt en bætir við að skilningurinn sé þó enn á því stigi að hún skilji ef fólk tali hægt og skýrt. Tali fólk hins vegar hratt fari hún fljótt út af sporinu í skilningi á málinu. Ekki aðeins er tungumálið afar framandi fyrir Reem heldur er skrifmálið allt annað og nýr veruleiki fyrir hana. Hennar móðurmál, arabískan, er af allt öðrum toga með allt annað letur. Það þarf því ekki að hafa um það mörg orð að fyrir Reem og aðra landa hennar er það risastórt verkefni að takast á við íslenskuna.
 
Reem er 19 ára gömul. Hún á fimm bræður, einn þeirra er einnig í VMA, einn er í Brekkuskóla, tveir í Glerárskóla og einn á leikskóla. Móðir hennar starfar á leikskóla en faðir hennar rekur veitingastað þar sem boðið er upp á sýrlenskan mat og var opnaður í miðbæ Akureyrar sl. sumar. Amma hennar er einnig í heimili. 
 
Reem stundar nám á náttúrufræðibraut VMA og kann því vel, segir það oft nokkuð strembið og krefjandi því skilningur hennar í bæði íslensku og ensku sé takmarkaður. Oft komi því fyrir framandi orð í námsefninu en með góðri hjálp gangi þetta alltaf að lokum. Um framtíðaráform sín segir Reem að hún sé ekki farin að hugsa svo langt, fyrst sé að ljúka stúdentsprófi frá VMA. En ef til vill láti hún gamlan draum um að fara í læknisfræði verða að veruleika.
 
Fyrsta sumarið á Akureyri vann hún á leikskóla og segist hafa lært mikið í tungumálinu af krökkunum.  Síðastliðið sumar starfaði hún á Hótel KEA og segist þar ekki hafa haft jafn mikla möguleika á að læra íslensku því starfsfólkið hafi verið af ýmsum þjóðernum og því oft haft samskipti á ensku. Með skólanum segist Reem vinna tvo dagparta síðdegis við póstflokkun hjá Póstinum. 
 
Margt er auðvitað framandi í íslensku samfélagi fyrir fólk úr fjarlægum heimshluta eins og Reem. Hún nefnir að sér hafi komið það nokkuð á óvart að sjá hversu frjálsleg ungmenni á Íslandi eru í litavali þegar þau lita hár sitt. Annað atriði nefndi Reem sem henni hafi komið nokkuð á óvart, nefnilega að Íslendingar sjóði fiskinn í vatni. Slíkt sé aldrei gert í Sýrlandi. Þar sé fiskurinn eldaður í ofni eða grillaður, soðningin að hætti Íslendinga sé óþekkt eldunaraðferð í Sýrlandi!