Fara í efni

Í námi til stúdentsprófs í VMA eftir búfræðinám á Hvaneyri

María Damalee Vilhjálmsdóttir.
María Damalee Vilhjálmsdóttir.

María Damalee Vilhjálmsdóttir útskrifaðist sem búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri sl. vor eftir að hafa stundað þar nám í tvö ár. Núna er hún á skólabekk í VMA og hefur tekið stefnuna á stúdentinn.

María ólst upp í Keflavík og var þar í Heiðarskóla upp í 9. bekk grunnskóla en lauk síðan 10. bekknum í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Tengslin við sveitina eru rík því hún var alltaf mikið hjá afa sínum og ömmu á Vatnsenda í Eyjafjarðarsveit. Sveitagenin hafa þannig smám saman verið að eflast hjá Maríu og því þurfti ekki að koma á óvart þegar hún fór á Hvanneyri. En áður hafði hún verið í eitt ár í MA, leiðin lá síðan á listnáms- og hönnunarbraut VMA og loks í grunndeild málmiðnaðar í VMA. Og nú er hún aftur komin í VMA og vinnur að því að safna í sarpinn upp í stúdentspróf þeim einingum sem hún á eftir til að ná þeim áfanga.

Vert er í þessu sambandi að nefna að á síðasta ári tóku VMA og Landbúnaðarháskólinn upp samstarf sem hefur það að markmiði að nemendur eigi þess kost að útskrifast með stúdentspróf frá VMA og búfræðipróf frá Landbúnaðarháskólanum.

Nám í búfræði við Landbúnaðarháskólann er starfsmenntanám á framhaldsskólastigi og skal umsækjandi hafa náð 18 ára aldri og lokið þremur til fjórum önnum í framhaldsskóla. María Damalee Vilhjálmsdóttir er því gott dæmi um nemenda sem hefur farið þessa leið í námi.