Fara í efni

Stúdentspróf og búfræði - samstarf VMA og Landbúnaðarháskóla Íslands

Búfræði er tveggja ára nám á Hvanneyri.
Búfræði er tveggja ára nám á Hvanneyri.

Verkmenntaskólinn á Akureyri og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri (LbhÍ) hafa hafið samstarf sem miðar að því að nemendur eigi þess kost að útskrifast með stúdentspróf frá VMA og búfræðipróf frá LbhÍ. Áhersla námsins í VMA er á náttúruvísindagreinar til undirbúnings fyrir búfræðinám í LbhÍ auk undirbúnings fyrir háskólanám að loknu námi í LbhÍ.

Nám í búfræði við Landbúnaðarháskólann er starfsmenntanám á framhaldsskólastigi og skal umsækjandi hafa náð 18 ára aldri og lokið þremur til fjórum önnum í framhaldsskóla. Þá er gert ráð fyrir að umsækjendur um búfræðinám á Hvanneyri hafi að minnsta kosti eins árs reynslu af störfum í landbúnaði sem skólinn viðurkennir. Sjá nánar hér um búfræðinám við LbhÍ.

Í þessu samstarfi VMA og LbhÍ er miðað við að nemendur hefji nám í VMA að loknum grunnskóla og taki þrjár til fjórar annir í bóklegu námi til stúdentsprófs (87-112 einingar). Áherslan er á kjarnagreinar og náttúruvísindagreinar og eru þrjár annir lágmark til stúdentsprófs en nemendur standa sterkari að vígi með fjögurra anna bóklegt nám til undirbúnings mögulegs háskólanáms að loknu búfræðinámi á Hvanneyri.

Búfræðinámið á Hvanneyri er fjórar annir og að því loknu útskrifast nemendur sem áður hafa verið í bóknámi í VMA sem búfræðingar frá Landbúnaðarháskólanum og stúdentar frá Verkmenntaskólanum. Með þessu móti hafa nemendur þannig lokið á fjórum árum bæði námi til starfsréttinda og stúdentsprófi, sem veitir þeim aðgang að námi á háskólastigi.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, fagnar þessu samstarfi við Landbúnaðarháskólann, sem hún segir að hafi komið til í framhaldi af formlegu erindi Félags eyfirskra kúabænda til skólans um möguleika á því að VMA setti upp undirbúningsnám fyrir þá nemendur sem stefni á búfræðinám við Landbúnaðarháskólann. Sigríður Huld segir ekki hafa verið vandkvæðum bundið fyrir skólann að bregðast við þessari ósk enda hafi hann lengi boðið upp á viðbótarnám til stúdentsprófs fyrir nemendur á starfsnámsbrautum skólans.

Álfheiður B. Marinósdóttir, kennslustjóri Landbúnaðarháskóla Íslands, segist vera mjög ánægð með þetta samstarf við VMA. Í nokkur ár hafi verið samstarf á líkum nótum við Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi sem hafi gefist mjög vel og nýverið hafi einnig verið komið á samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Álfheiður segir að bróðurpartur búfræðinema sé í staðnámi á Hvanneyri en einnig séu nokkrir fjarnemar. Hún segir stefnt að því að fjölga nemendum og hafa tvær bekkjardeildir í búfræði í stað einnar. Hins vegar sé nokkuð flókið að auka umfang verklega námsins á staðnum, sem hafi töluvert mikið vægi í búfræðináminu. Að því sé þó unnið og vonandi verði unnt að hafa tvær bekkjardeildir í búfræðinni innan mögulega tveggja ára.

Álfheiður segir að aðsókn í búfræði í LbhÍ hafi verið mikil undanfarin ár, enda sé námið gott og nýtist vel bæði þeim sem hyggist starfa í landbúnaði og öðrum. „Staðreynd málsins er sú að það þarf að verða meiri nýliðun í landbúnaði og það hefur lengi verið talað um að auka menntun fólks sem fer í búskap. Þá má nefna að búfræðipróf gefur aukastig við úthlutun svokallaðra nýliðunarstyrkja í landbúnaði,“ segir Álfheiður.

„Við vitum að það eru nemendur í framhaldsskólum landsins sem hafa engan brennandi áhuga á bóknámi en eru að bíða eftir því að geta náð aldri til þess að sækja um búfræðinám hjá okkur hér á Hvanneyri. Formlegt undirbúningsnám fyrir búfræðinámið, eins og VMA er að setja upp, sem um leið er þá nám til stúdentsprófs, er að mínu mati mikilvæg gulrót fyrir þessa nemendur. Með því að setja þetta svona upp er nemendum opnuð leið til þess að halda áfram í námi á háskólastigi að loknu búfræðiprófinu í LbhÍ, kjósi þeir það,“ segir Álfheiður.

Rétt er að taka fram að VMA tryggir ekki að nemendur fái aðgang að búfræðinámi í LbhÍ. Landbúnaðarháskólans er að gefa svar um það. Hins vegar tryggir VMA að það þriggja eða fjögurra anna nám sem nemendum, sem stefna á búfræði, er boðið upp á uppfylli inntökuskilyrði í búfræði við LbhÍ og kröfur sem gerðar eru til stúdentsprófs, þegar búfræðinámi er að fullu lokið. Nemendur þurfa sjálfir að sækja um nám í búfræði við Landbúnaðarháskólann og tryggja að þeir uppfylli þau inntökuskilyrði sem hann setur.

Nánari upplýsingar um námið í VMA og samstarfið við Landbúnaðarháskólann veitir Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta VMA.