Hjálparmyndbönd í stærðfræði
Það er lífseig saga að stærðfræðin sé mörgum nemendum þung í skauti – jafnvel töluvert erfiðari en aðrar námsgreinar. Að sjálfsögðu er þetta einstaklingsbundið, fyrir suma er stærðfræðin sem opin bók en öðrum er hún torskilin og fráhrindandi. Hilmar Friðjónsson, einn af stærðfræðikennurum í VMA, segir það rétt að fyrir marga nemendur sé stærðfræðin ákveðin grýla og til þess að fá þá til þess að nálgast námsefnið þurfti oft og tíðum að fara óhefðbundnar leiðir.
Himar hóf að kenna stærðfræði- og viðskiptagreinar í VMA árið 2001 en í vetur kennir hann einungis stærðfræði – mismunandi stærðfræðiáfanga.
Undanfarin átta ár hefur hann unnið að því að búa til stutt myndbönd – flest á bilinu 3-5 mínútur – þar sem hann útskýrir ýmsa þætti í stærðfræðinni í tali og mynd. Í heildina hefur hann búið til um 700 slík myndbönd og alltaf er að bætast í safnið. Nemendur í VMA geta haft aðgang að þessum myndböndum, skoðað þau og fengið útskýringar á ýmsum dæmum. Myndböndin eru aðgengileg á moodle.vma.is – þar er mappa sem heitir VMASTÆ-myndbönd og nýtast þau sem hjálpartæki fyrir áfangana STÆF1BP04 STLÆF1AH05, STÆF1JF05, STÆF2RH05, STÆF2TE05 og STÆF2AM05. Til þess að komast þarna inn velja nemendur áfangann (ekki kennarann) og skrá sig síðan inn á Moodle. Að því loknu þarf einungis að smella á hnapp sem merktur er Skráðu mig (Enroll me). Einfaldast og best er að hlaða niður Moodle appi og fara inn á því.
Hilmar segir að hann hafi ekki vísindalega mælingu á því hversu margir nemendur nýti sér hjálparmyndböndin en þó megi sjá á umferð um vefinn að notkun þeirra hafi verið að aukast, ekki síst í aðdraganda prófa. Hann segist ekki nota myndböndin í sjálfri stærðfræðikennslunni í skólastofunni en vísi nemendum á að skoða dæmin betur á hjálparmyndböndunum sem eru vistuð á Youtube. Hann segist hins vegar hafa heyrt orð nemenda um að þeir hafi öðlast skilning á ákveðnum atriðum í stærðfræðinni með því að horfa á myndböndin aftur og aftur. Vitað sé að einbeiting nemenda og nálgun á viðfangsefnið sé oft og tíðum önnur þegar þeir setjist niður við tölvuna utan skólastofunnar og horfi á myndböndin.
Þó svo að myndbandstæknin komi ekki í stað venjubundinnar kennslu í stofu segir Hilmar engan vafa á því að hún geti hjálpað mörgum nemendum til þess að öðlast skilning á viðfangsefninu og þá sé takmarkinu náð. Hann segist hafa farið að prófa sig áfram í þessari kennsluaðferð í kjölfarið á tilraunum sem Bandaríkjamðurinn Khan þróaði í gerð stærðfræðimyndbanda á vefnum – sem síðar þróaðist út að að verða Khan Academy, stór og aðgengilegur námsbanki á netinu. Annar gríðarlega stór gagnabanki með allskyns fræðsluerindum er Ted.
Á síðasta ári var sagt frá því hér að endurútgefin hafi verið kennslubók Kjartans Heiðberg, fyrrv. stærðfræðikennara í VMA, um rúmmál og flatarmál þar sem settir voru inn QR-kóðar og á bak við þá eru hjálparmyndbönd. Þetta hefur gefið góða raun og hjálpað nemendum. QR-kóðarnir gefa þann möguleika að á bak við þá er hægt að setja inn ný myndbönd, annað hvort ný myndbönd frá grunni eða endurbætt myndbönd.