Fara í efni

Hef ánægju af því að grúska og leita lausna

Adam Ásgeir Óskarsson.
Adam Ásgeir Óskarsson.

Adam Ásgeir Óskarsson hefur fylgt Verkmenntaskólanum á Akureyri í þrjátíu ár - frá stofnun hans árið 1984. Og í allan þann tíma hefur hann verið ómissandi í uppbyggingu tölvukerfis skólans og oftar en ekki hefur grúskið hans Adams verið mikilvægur hlekkur í að ryðja brautina á ýmsum sviðum tölvumála hér á landi.

Eins og oft vill verða  í lífinu réði tilviljun því að Adam hellti sér á sínum tíma í kennslu.

„Ég var á þessum tíma í skóla í Kanada þar sem ég var að læra mælingaverkfræði en var staddur í sumarfríi hér heima og eyddi því í vinnu í Tollinum hér á Akureyri. Einn góðan veðurdag gengur þar inn Magnús Aðalbjörnsson, sem þá var yfirkennari í Gagnfræðaskólanum. Við tókum tal saman og ég nefni svona í framhjáhlaupi við hann hvort ekki vanti stærðfræðikennara við skólann á komandi vetri. Innst inni hafði mig lengi langað til þess að spreyta mig á kennslu en kannski var þetta ekki heppilegur tímapunktur því ég hafði ekki lokið námi mínu í Kanada. Magnús svaraði því til að hann vissi ekki til þess að það vantaði kennara fyrir veturinn. En svo líður ekki nema um klukkutími þar til Magnús hringir í mig í vinnuna og spyr hvort ég hafi verið að meina það sem ég sagði um mögulega kennslu við Gaggann. Já, alveg eins, sagði ég. Þegar Magnús fór að skoða málin betur kom í ljós að það vantaði stærðfræðikennara og sömuleiðis kennara í efnafræði. Það varð því úr að ég tók þá ákvörðun á staðnum að taka mér frí í eitt ár frá náminu í Kanada og munstra mig þess í stað í kennslu í Gagnfræðaskólanum. Þegar upp var staðið hafði ég tekið að mér kennslu í sjö mismunandi fögum, þ.á.m. stærðfræði, efnafræði, jarðfræði og ensku. Þetta var auðvitað nýr heimur fyrir mér og veturinn var mjög erfiður, því skal ekki neitað, en jafnframt var þetta afar skemmtilegt. Þennan vetur kynntist ég konunni minni, Hugrúnu Helgadóttur, sem þá var einnig á fyrsta ári í kennslu. Þetta voru því á margan hátt spennandi tímar.“

Leiðin liggur í VMA
„Þetta var veturinn 1983/1984 og þá var Bernharð Haraldsson og fleira gott fólk á fullu að undirbúa stofnun Verkmenntaskólans. Margir kennarar úr Framhaldsdeild VMA fylgdu Bernharð síðan í VMA þegar hann hóf störf 1984. Bernharð bað mig að taka að mér stærðfræði- og efnafræðikennslu. Hugrún var þá nýlega útskrifuð sem kennari og því varð úr að við ákváðum í sameiningu að ég frestaði því aðeins lengur að klára nám mitt í Kanada. Ég tók því boði Bernharðs og hóf að kenna við VMA. Þegar síðan ég hafði hug á að klára námið nokkrum árum síðar hafði það breyst mikið með tilkomu tölvutækninnar og ég komst að raun um að grunnur minn væri ekki nægilega góður til þess að hella mér í þetta aftur. Það varð því úr að við fórum til Danmerkur árið 1989 og ég tók þar nám í kerfisfræði, enda hafði ég þá þegar kynnst tölvutækninni og fannst hún áhugaverður og spennandi heimur.
Fyrstu skrefin í VMA voru í minningunni mjög skemmtileg. Ég hafði mikla ánægju af vinnunni, það var unnið myrkranna á milli, alltaf verið að búa eitthvað til og gera eitthvað nýtt. Allir voru tilbúnir að leggja mikið á sig til þess að móta og gera góðan skóla. Andinn í hópnum var frábær og mikill vinskapur myndaðist milli starfsmanna. Skólinn varð strax mun stærri en gert var ráð fyrir og til þess að koma öllu fyrir var kennt til klukkan sex á daginn. Ekki aðeins var kennt í hinu nýja húsi á Eyrarlandsholti, sömuleiðis var kennt í Húsmæðraskólanum, gamla Iðnskólanum, Íþróttahöllinni og fleiri stöðum. En þetta gekk með mikilli vinnu enda var metnaðurinn ómældur.“

Fyrsta IBM-tölvan
„Ég hugsa að það hafi verið árið 1985 sem við fengum fyrstu IBM-tölvuna á kennarastofuna og einnig voru keyptar nokkrar tölvur til viðbótar og sett upp tölvustofa í kjallaranum í Iðnskólanum. Tölvurnar virkuðu eins og segull á mig og ég hellti mér fljótlega út í djúpu laugina og fór að grúska í þessari nýju tækni. Ég hafði kynnst þessu lítillega í Kanada, lærði lítilsháttar forritun sem á lítið skylt við forritun í dag. Hlutirnir gerðu síðan nokkuð hratt eftir þetta og árið 1987 fengum við fyrsta harða diskinn í skólann, sem var á stærð við skókassa, um 10 kíló að þyngd, og gagnarýmdin á honum var 5 megabæt. Við Garðar Lárusson störðum á þetta fyrirbæri og spurðum okkur hvenær í ósköpunum við myndum ná að að fylla þetta bákn af gögnum!
Fljótlega varð þessi tölvuheimur mitt áhugasvið sem kannski helgast ekki síst af því að ég hef ánægju af því að grúska og leita lausna á því sem ég þekki ekki.“

Gleymdu sér í hléi í leikhúsinu
„Árið 1989, þegar ég var í námi í Danmörku, kynntist ég í fyrsta skipti tölvusamskiptum. Við keyptum nokkrir bekkjarfélagar módem og notuðum símalínur til þess að hringja á milli tveggja tölva. Þegar ég síðan kom heim árið 1992 heyrði ég af tilraunum Péturs Þorsteinssynar, fyrrverandi skólastjóra á Kópaskeri, með tölvusamskipti. Við hittumst síðan af hreinni tilviljun í hléi á leiksýningu í Samkomuhúsinu á Akureyri og tókum tal saman. Fljótlega barst talið auðvitað að tilraunum Péturs og við gleymdum okkur svo rækilega í þessum samræðum að það fórst fyrir hjá okkur að fara inn í salinn og sjá síðari hluta leikrsýningarinnar! Pétur tjáði mér að hann hafi verið að þreifa sig áfram með tölvupóst og netfang, sem ég vissi þá ekki hvað var. Daginn eftir kom Pétur upp í Verkmenntaskóla og við héldum áfram spjalli okkar þar sem frá var horfið í Samkomuhúsinu. Fljótt fékk ég netfang og nokkrir fleiri til viðbótar í skólanum. Til þess að ná í póstinn okkar þurftum við á þessum tíma að nálgast hann í gegnum netþjón Péturs, Imbu, sem var staðsettur á Kópaskeri. Til að byrja með vissum við varla hvernig við ættum að nota þetta því fáir voru þá komnir með netföng og því gátum við ekki í verið í tölvusamskiptum við marga. Upp úr þessu var síðan stofnað Íslenska menntanetið og útstöðvar þess settar upp á Akureyri og Reykjavík.  Einn af möguleikunum sem opnuðust við þetta var að fá fastlínu sem gaf þann möguleika að hafa opna línu.“

Fyrsta vefsíða framhaldsskóla á Íslandi
„Verkmenntaskólinn hafði frumkvæði á ýmsum sviðum tölvumála sem helgaðist af áhuga okkar á þessari tækni. Þetta var óskilgreindur heimur en við skynjuðum að hann var áhugaverður og gæfi ýmsa möguleika.
Fyrsta vefsíða VMA kom til árið 1997. Vegna tengsla okkar við Íslenska menntanetið notuðum við til að byrja með vefslóð frá þeim sem var vma.ismennt.is. Vefsíðan varð til að byrja með á mínu heimasvæði og hún var auðvitað mjög frumstæð. Ég  þurfti að þreifa mig áfram í þessu eins og öðru, t.d. komst ég að raun um að vefsíður væru skrifaðir í einhverju sem hét HTML, nokkuð sem ég hafði aldrei heyrt á minnst. Ég hellti mér því í að finna út hvað það fyrirbæri væri og um viku síðar var komið eitthvað sem mátti kalla vefsíðu. Ekki merkileg síða en engu að síður vefsíða og ég fullyrði að þetta var fyrsta vefsíðan í íslenskum framhaldsskólum. Hún var auðvitað mjög hæg og til marks um það þurfti maður að passa sig vel á því að myndirnar á síðunni væru ekki stærri en 10k.“

Frumkvöðlar í fjarkennslu
„Fljótlega eftir að við komum með vefinn, líklega var það 1998, fór ég að forrita fyrir vefinn með það að markmiði að setja efni út á hann fyrir fjarkennsluna. Ég viðurkenni að sú uppgötvun að geta mögulega útfært gagnvirkni hélt fyrir mér vöku vikum saman því þarna sáum við alveg nýja möguleika opnast í fjarkennslunni á þann hátt að kennarar og nemendur gætu sent sín á milli verkefni og svör í náminu. Í sambandi við fjarkennsluna brölluðum við Haukur Ágústsson, sem hafði umsjón með henni í VMA, með það að markmiði að bæta hana.“

Skuggahliðar netsins
„Á þessum tíma var erfitt að sjá fyrir hvernig netið myndi þróast en ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á því að það myndi smám saman breytast úr því að verða fræðslumiðill yfir í að verða afþreyingarmiðill, eins og það er óneitanlega í dag.  Það finnst mér ekki sérlega góð þróun og ég neita því ekki að það getur verið mjög erfitt að halda athygli nemenda í kennslustundum þegar þeir eru stöðugt með snjallsíma í höndunum. Staðreyndin er sú að kennarar eru í harðri samkeppni við þessi tæki  um athygli nemenda. Eins og netið er gott og uppspretta allskyns þekkingar verður að segjast eins og er að margir nemendur vita ekki hvernig þeir eiga að nálgast hana. Heimur þeirra einskorðast við afþreyingu og tölvuleiki. Margir nemendur nálgast lausnir á verkefnum í gegnum netið en vita um leið ekki hvernig þær eru fundnar. Þetta er ákveðið vandamál. Meðal annars vegna þessa nota ég 23 ára gamla danska kennslubók í forritun í áfanga sem ég er núna að kenna. Þessa bók er ekki að finna á netinu og því eru lausnirnar á verkefnum úr henni ekki þar. En almennt má segja um þessa þróun netsins að maður þarf að fá nemendur með sér og leiða þá í sannleika um þessar skuggahliðar netsins.“

Mikill sparnaður með opnum hugbúnaði
„Við í VMA og HA notuðum um tíma WebCT kerfið sem heldur utanum námsefni og við Guðjón Ólafsson kennari þýddum það á íslensku. Það sem síðan gerðist var að við eigendaskipti fór þetta kerfi að kosta of mikið og þá lagði ég til að við færum að nota þess í stað opna hugbúnaðinn Moodle. Ég hafði kynnst honum í Kanada þar sem ég var eitt ár í námsleyfi og fannst hann á þeim tíma ekki nægilega góður en síðan var lögð aukin vinna í hann af hálfu þeirra sem smíðuðu hann og úr varð að hann var og er mjög góður.  Við skiptum síðan árið 2008 yfir í Moodle.
Við tókum að mínu mati mjög stórt skref í tölvumálunum í skólanum þegar við fórum í opinn hugbúnað árin 2008 og 2009. Með þessari leið ráðum við sjálf okkar kerfi en erum ekki leidd áfram af einhverjum öðrum. Þegar upp er staðið spörum við gríðarlega mikla peninga og um leið nýtum við búnaðinn okkar miklu betur. Ég þekki ekki tölur um sparnað en ég fullyrði að frá því við tókum upp þennan opna hugbúnað er Verkmenntaskólinn búinn að spara sér tugi milljóna króna í tölvumálum.“

Góð afslöppun í smíðunum
„Í vetur hef ég kennt forritun og tölvur og nettækni en undanfarin ár hef ég mest verið að kenna stærðfræði, eftir að ég hætti sem kerfisstjóri VMA fyrir um tveimur árum. Það var orðinn nægilega langur tími, enda hafði ég verið í tölvumálunum frá upphafi. Eftir að hafa m.a. farið í hjartaaðgerð fann ég að það gekk ekki lengur að vera stöðugt á vakt gagnvart tölvumálunum í skólanum. Tölvukerfi má aldrei stoppa og því þarf að vera vakandi og sofandi yfir þessu. Sumarfríin fóru gjarnan í uppfærslu á kerfinu og því var lítið um sumarfrí í tuttugu ár.
En núna er ég sem sagt í kennslu í VMA og hef auk þess umsjón með kennslukerfinu Moodle í VMA og einnig í Háskólanum á Akureyri. Á kvöldin finnst mér gott að hvíla mig eftir langa vinnudaga með því að sinna mörgum áhugamálum. Meðal annars að fara út í bílskúr og smíða. Síðastliðinn vetur smíðaði ég mér bát – kanó – úr sedrusviði. Ég er að bjástra við ýmislegt í smíðinni, meðal annars hef ég gaman af því að renna ýmsa hluti.“

Ekki allskostar jákvæð þróun
„Það er mjög erfitt að spá fyrir um hvernig netnotkun fólks muni þróast en það er líklegt að netið muni yfirtaka enn frekar öll samskipti. Við munum fljótlega hætta að tala í síma eins og við gerum í dag en munum væntanlega fyrst og fremst gera það á skjá eins og er þegar gert í gegnum Skype og Google + og önnur forrit. Þetta verður í auknum mæli samofið lífi okkar. Maður er raunar hættur að átta sig á því hversu mikið við notum netið og þá tækni sem það býður upp á.
Við eigum sumarbústað í Dalsmynni og þar er hvorki net- né sjónvarpssamband. Mér finnst einstaklega gott að komast þangað og kúpla mig frá þessu öllu og maður sér þegar komið er aftur út úr Dalsmynninu og í samband við umheiminn að það dettur inn haugur af símaskilaboðum og „missed calls“ Staðreyndin er sú að skuggahliðin á tölvunum er sú að maður gleymir sjálfum sér. Maður hleður batteríin með því að komast frá þessu daglega áreiti og ég hef notað bæði sumarbústaðinn og veiðina til þess að gera það. Fólk sem ekki áttar sig ekki á þessu er að mínu mati illa statt. Þetta sér maður í veislum, á veitingastöðum og víðar. Mannleg samskipti eru á undanhaldi og það er ekki gott. Á jólunum í fyrra var fjölskyldan okkar – börn og tengdabörn – öll saman og ég bað þau um eitt; á aðfangadag yrðu þau hvorki í tölvum né símum. Þau voru svolítið hissa á þessari ósk minni en ég sagði þeim að þarna værum við saman komin og ættum þessa stund saman og við ættum að muna eftir henni. Á slíkri stundu þyrftum við ekki á neinu öðru að halda en okkur sjálfum. Yngri kynslóðin varð við þessari bón minni og hefur síðan talað um hversu notalegt þetta hafi verið.
En þau tala jafnframt um það þegar þau koma í sumarbústaðinn í Dalsmynninu að það sé skrítið að ná hvorki netinu né sjónvarpinu. Sem er kannski ekki undarlegt því rannsóknir sýna að að jafnaði kíkkar ungt fólk 105 sinnum á dag í símann sinn. Það er umhugsunarvert.“