Fara í efni

Grunnurinn lagður

Bragi Óskarsson fer yfir málin með nemendum.
Bragi Óskarsson fer yfir málin með nemendum.

Á þriðju önn í byggingadeild fá verðandi húsasmiðir það verðuga verkefni að byggja frístundahús eða sumarbústað. Þetta árlega verkefni er nemendum dýrmætt því það veitir sýn og þjálfun í fjölmörgu varðandi byggingu timburhúsa sem smiðir glíma við út á vinnumarkaðnum.

Frá fyrsta degi á haustönn hefja nemendur forsmíði hússins – undirstöðurnar og vegggrindurnar og síðan þegar þeim verkþætti er lokið er húsið reist norðan við hús byggingadeildar. Húsið sem núna er í byggingu er sambærilegt við húsið sem nemendur reistu í fyrra en það var selt og hefur nú verið komið fyrir á sínum framtíðarstað á Laugum í Reykjadal.

Þessar myndir voru teknar í síðustu viku þegar Bragi Óskarsson kennari var að leiðbeina nemendum við smíðina. Hér er að störfum annar tveggja námshópa sem takast á við þetta verkefni í vetur, bæði á haust- og vorönn, en í það heila glíma um tuttugu nemendur við smíði hússins. Miðað er við að komast eins langt með frágang hússins, þ.m.t. allar lagnir, og mögulegt er fyrir lok vorannar og verður það boðið til sölu á því byggingarstigi.