Fara í efni

Grænu skrefunum fjölgar

Búið er að taka þrjú af fimm Grænum skrefum í VMA
Búið er að taka þrjú af fimm Grænum skrefum í VMA

Á dögunum fékk VMA staðfestingu á þremur af fimm Grænum skrefum í rekstri skólans. Halla Hafbergsdóttir, sem er verkefnisstjóri VMA í innleiðingu Grænna skrefa, segir að áfram sé haldið í innleiðingu á fjórða og fimmta skrefi enda sé við það miðað að ríkisstofnanir hafi lokið öllum fimm skrefunum í lok þessa árs.

Umhverfismál hafa æ meira vægi í þjóðfélagsumræðunni og þessa dagana er kastljós heimsbyggðarinnar á COP 26 - loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í Skotlandi þar sem mögulega verða teknar stórar ákvarðanir þjóðarleiðtoga um allan heim um loftlagsmál.

Á sama tíma og rætt er um loftlagsmálin í víðu samhengi í Glasgow taka Íslendingar mikilvæg skref í umhverfismálum á degi hverjum. Umhverfisvitund fólks hefur aukist mjög greinilega á ýmsum sviðum. Hringrásarhagkerfið hefur stækkað til muna og endurvinnsla og endurnýting hefur alltaf meira og meira vægi.

Græn skref í ríkisrekstri snúast um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umverfisvitun starfsmanna. Með því að hafa fengið staðfest þrjú skref af fimm hefur umtalsverðum áfanga verið náð. Hér eru fjölmörg atriði undir og skal getið aðeins nokkurra þeirra; flokkun (skólinn endurnýtir um 75% af úrgangi), dregið er úr pappírsnotkun, reynt er að takmarka ferðir á fundi og hafa fundina frekar rafræna, skólinn tekur þátt í Hjólum í vinnuna, starfsfólk er hvatt til þess að slökkva á tölvum og ljósum í lok vinnudags, ekki er boðið upp á einnota borðbúnað á viðburðum, rafhlöðum hefur verið skipt út fyrir hleðslurafhlöður, kynningarefni er aðgengilegt rafrænt, flug sem skólinn kaupir er kolefnisjafnað og tölvubúnaður sem er keyptur í skólann er með Energy Star og/eða TCO umhverfismerkjum. 

Þetta og fjölmargt annað rúmast innan þeirra Grænu skrefa sem skólinn hefur nú þegar tekið og áfram er haldið til þess að fá staðfest öll skrefin fimm.

VMA starfar samkvæmt umhverfis- og loftlagsstefnu sem er aðgengileg á heimasíðu skólans.