Fara í efni

Glíma við tímann og vatnið og skúlptúrar listnámsnema

Eitt verka Þorbjargar á sýningunni í VMA.
Eitt verka Þorbjargar á sýningunni í VMA.

Eins og oft áður er myndlistin í hávegum höfð í VMA. Nú standa yfir tvær sýningar innan veggja skólans. Annars vegar sýnir Þorbjörg Jónasdóttir, fyrrverandi starfsmaður skólans til 28 ára, verk á kennarastofu skólans sem hún hefur unnið með blandaðri tækni á vínylplötur og hins vegar eru á aðalgangi skólans (Gallerí Glugg) sýndir skúlptúrar sem myndlistarnemendur í skúlptúraáfanga á listnáms- og hönnunarbraut hafa unnið undir stjórn Örnu G. Valsdóttur og Hallgríms Ingólfssonar. Tveir hópar nemenda eru í áfanganum og verður verkunum sem nú eru til sýning í Gallerí Glugg skipt út í næstu viku fyrir aðra skúlptúra sem unnir eru af öðrum nemendum í sama áfanga.

Þorbjörg Jónasdóttir lét af störfum við VMA um áramótin 2015-2016 eftir langt og farsælt starf. Við þau tímamót sagði hún að hún stefndi á að auka þekkingu sína í myndlist, sem hún hafði lítillega fengist við, og það hefur hún gert. Hún tók að sækja námskeið í myndlist í Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og nýtur þar kennslu Guðmundar Ármanns og Bryndísar Arnardóttur (Billu) og mun ljúka þessu námi í desember nk. Áður hafði Þorbjörg sótt ýmis námskeið hjá öðrum listamönnum.

Á sýningu sinni í VMA, sem er þriðja einkasýning Þorbjargar (áður hefur hún sýnt á Bláu könnunni á Akureyri árið 2015 og á Kiðagili í Bárðardal árið 2016) sýnir hún hringlaga verk, vínylplötur sem hafa verið unnin með blandaðri tækni. Verkin tengir hún öll við ljóðið Tímann og vatnið eftir Stein Steinarr og er heiti hvers verks hending úr ljóðinu. Um sýninguna segir Þorbjörg: „Þessi vinna hefur verið stanslaus glíma við tímann og vatnið, sem hvorugt verður stöðvað og hvort um sig finnur sér oft annan farveg en þann sem því er ætlaður.“

Verk Þorbjargar á sýningunni eru öll til sölu.