Fara í efni

Þrír starfsmenn VMA létu af störfum um áramót

Hjördís, Þorbjörg og Hjalti Jón.
Hjördís, Þorbjörg og Hjalti Jón.

Núna um áramótin létu þrír starfsmenn VMA af störfum eftir langt og heilladrjúgt starf hjá skólanum. Hjalti Jón Sveinsson skólameistari lét af störfum eftir sextán ár í stóli skólameistara, Þorbjörg Jónasdóttir skólafulltrúi hætti að loknu tuttugu og átta og hálfs árs starfi hjá VMA og Hjördís Stefánsdóttir, kennari í grunnnámi matvæla- og ferðagreina, lét af störfum eftir tuttugu og fjögurra ára starf í VMA. Þeim var öllum þökkuð mikil og góð störf fyrir skólann í hófi sem efnt var til fyrir jól og leyst út með gjöfum.

Sigríður Huld Jónsdóttir aðstoðarskólameistari, nú skólameistari VMA, afhenti Hjalta Jóni, forvera sínum og nánum samstarfsmanni til margra ára, gjöf fyrir hönd skólans en sem kunnugt er hefur hann nú tekið við starfi skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík.

Hér eru þær saman á mynd Hjördís Stefánsdóttir og Þorbjörg Jónasdóttir sem hafa unnið mikið og gott starf fyrir VMA í gegnum árin.

Í hófinu fyrir jól flutti Hjalti Jónsson, sálfræðingur skólans og stórsöngvari, ásamt Kennarabandinu brag sem Emilía Baldursdóttir, námsráðgjafi og textahöfundur, hafði sett saman við lag Megasar „Spáðu í mig“ og tileinkað Hjalta Jóni Sveinssyni, fráfarandi skólameistara. Í Kennarabandinu eru Baldvin B. Ringsted á gítar, Gunnar Möller á bassa og Þorleifur Jóhannsson á trommur.

Hafðu það gott

Hér er kvatt og haldið út í bláinn
í höfuðborgarvist að una sér
en það er gott að þú ert ekki dáinn
þótt viljir ekki dvelja lengur hér.

En hafðu það gott og góðan eigðu dag,
hafðu það gott, þér gangi allt í hag.

Friður verður kannski meiri í Kvennó,
kennararnir eins og bráðið smér,
en vittu til það verður ekki spennó,
vandamálin hverdagslegri en hér.

En hafðu það gott og góðan eigðu dag,
hafðu það gott, þér gangi allt í hag.

Ef dagarnir ei skella í réttar skorður,
skólastjórnun erfiðleikum háð,
í hendingskasti hringdu bara norður,
við höfum – eins og áður – þúsund ráð.

En hafðu það gott og góðan eigðu dag,
hafðu það gott, þér gangi allt í hag.

Við höfum stundum gráan belginn goldið
en góða saman fundið skólasýn
svo vonandi þú saknar okkar soldið
þá sömuleiðis hugsum við til þín.

En hafðu það gott og góðan eigðu dag,
hafðu það gott, þér gangi allt í hag.

(Texti: Emilía Baldursdóttir - Lag: Megas)

 

Á meðan á hófinu stóð unnu starfsmenn skólans í sameiningu að skilnaðargjöfum til Hjalta Jóns, Þorbjargar og Hjördísar. Um var að ræða málverk af Akureyri og Eyjafirði sem Hallgrímur Ingólfsson, kennari á listnámsbraut, gerði útlínur að en síðan lögðu starfsmenn í sameiningu hönd á plóg og var útkoman bráðskemmtileg. Gaman var að sjá hversu mismunandi útkoman var þó svo að fyrirmyndin væri sú sama í öllum tilfellum.

Hér er málverk Hjalta Jón.

Hér er málverk Þorbjargar.

Hér er málverk Hjördísar.