Fara í efni

Gestkvæmt í VMA í gær

Bragi Óskarsson ræðir við gesti á opnu húsi í gær.
Bragi Óskarsson ræðir við gesti á opnu húsi í gær.

Það var heldur betur gestkvæmt í VMA í gær þegar nemendur níunda bekkjar grunnskólanna á Akureyri komu í skólann fyrir hádegi og seinni part dagsins var síðan opið hús í skólanum þar sem fjölmargir komu í heimsókn og kynntu sér sér fjölbreytta starfsemi skólans. Fyrir hádegi brugðu leikarar í Bugsý Malón á leik og sýndu stutt atriði úr sýningunni en eins og fram hefur komið verða seinni tvær sýningar á verkinu í Hofi í kvöld, föstudagskvöld, og nk. sunnudagskvöld.

Kynning á námi og starfi VMA er fastur liður á vorönn. Þá koma 9. og 10. bekkingar úr grunnskólum á Norðurlandi í heimsókn, fá fyrst almenna kynningu á skólanum og síðan fara þeir um skólann og fá upplýsingar um starfsemi verknáms- og bóknámsbrauta skólans. Stór hluti heimsókna grunnskólanemanna var í þessari viku, annars vegar sl. miðvikudag þegar nemendur grunnskóla utan Akureyrar sóttu skólann heim og hins vegar í gær þegar nemendur í 9. bekk grunnskólanna á Akureyri komu í heimsókn. Í byggingadeildinni var nemendum sýnt myndband af því hvernig eitt stykki sumarbústaður rís af grunni. 

Seinni partinn í gær, milli kl. 16:30 og 18:30, var síðan efnt til opins húss þar sem fjölmargir komu og kynntu sér starfsemi skólans. Þessar myndir voru teknar á opnu húsi.

Öllum sem hafa komið í heimsókn í VMA í þessari viku er þakkað innilega fyrir komuna.