Fara í efni

Gerbakstur og skinkuhorn

Einbeittur í bakstri skinkuhorna.
Einbeittur í bakstri skinkuhorna.

Hluti af námi nemenda í grunndeild matvæla- og ferðagreina er verklegur og því er mikilvægt að nemendur geti komið í skólann og tekið verklegar æfingar sínar í bæði eldamennsku og framreiðslu undir handleiðslu kennaranna.

Þegar litið var inn í kennslustund á matvælabrautinni voru grunndeildarnemar í kennslustund í eldhúsinu undir handleiðslu Marínu Sigurgeirsdóttur. Fyrstu skrefin í gerbakstri voru verkefni dagsins – krakkarnir voru einbeittir í að baka girnileg skinkuhorn. Gaman var að sjá hversu skipulega þeir unnu og höfðu greinilega mikinn áhuga á viðfangsefninu.

Tuttugu og sex nemendur eru í grunndeild matvæla- og ferðagreina og er þeim skipt í tvo námshópa.

Marína segir að í kennslunni þurfi að huga vel að sóttvörnum og nándarreglunni til þess að öllum reglum sé fylgt í hvívetna. Hún bætir því hins vegar við að raunar sé ýmislegt í þessum reglum kunnuglegt í kennsluni á matvælabrautinni, enda sé þar eðli málsins samkvæmt ætíð fylgt ströngum reglum um hreinlæti.

Grunnnám matvæla- og ferðagreina býr nemendur undir iðnnám í matreiðslu, bakstri, framreiðslu og kjötiðn en einnig er það undirbúningur fyrir frekara nám í matartækni og/eða í ferðaþjónustu. Grunnnámið er í tvær annir og síðan geta nemendur valið framangreindar námsbrautir.