Fara í efni

Fulltrúar VMA á Stórþingi ungmenna

Frá Stórþingi Akureyrar í Hofi sl. þriðjudag.
Frá Stórþingi Akureyrar í Hofi sl. þriðjudag.

Stórþing ungmenna, sem haldið var í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri sl. þriðjudag, sóttu átta nemendur úr VMA. Þeir eru: Dagbjört Jóna Tryggvadóttir, Gróa Guðmundsdóttir, Bríet Sara Sigurðardóttir, Dagbjört Jóna Tryggvadóttir, Linda Björg Kristjánsdóttir, Margrét Rún Stefánsdóttir, Hlynur Fannar Stefánsson, Jóhannes Þór Hjörleifsson og Sigurður Einar Þorkelsson.

Stórþing ungmenna var nú haldið í þriðja skipti en tilgangurinn með því er að gefa börnum og ungmennum tækifæri til þess að koma hugmyndum sínum og sjónarmiðum um það sem á þeim brennur á framfæri. Um framkvæmd þingsins sá Ungmennaráð Akureyrar en í því sitja m.a. þrír nemendur VMA, Felix Hrafn Stefánsson, Ásta Sóley Hauksdóttir og Freyja Dögg Ágústudóttir.

Þingið sóttu á annað hundrað börn og unglingar á aldrinum 12–18 ára og ræddu m.a. samgöngu-, geðheilbrigðis-, tómstunda- og skólamál. Umræður voru í senn skemmtilegar og gagnlegar og nýtast vel kjörnum fulltrúum og öðrum sem taka ákvarðanir um mál líðandi stundar og í framtíðinni.

Á þinginu flutti Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnisstjóri barnvænna sveitarfélaga hjá UNICEF, erindi um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mikilvægi merkingarbærrar þátttöku barna.