Fara í efni

Hef mikinn áhuga á þjóðfélagsmálum

Felix Hrafn Stefánsson.
Felix Hrafn Stefánsson.

„Ég hafði mikinn áhuga á því að taka sæti í Ungmennaráði Akureyrar og þess vegna sótti ég um. Ég sótti líka um í fyrra en komst þá ekki inn en það kom í ljós í desember sl. að ég hefði verið kosinn í ráðið til tveggja ára,“ segir Felix Hrafn Stefánsson, nemandi á öðru ári á listnáms- og hönnunarbraut VMA, en auk hans sitja nú tveir aðrir VMA-nemar í Ungmennaráðinu, Ásta Sóley Hauksdóttir og Freyja Dögg Ágústudóttir.

Í Ungmennaráði Akureyrar eru ellefu fulltrúar á grunn- og framhaldsskólaaldri. Ráðið kemur saman til fundar að jafnaði einu sinni í mánuði, fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði, og ræðir hin ýmsu málefni ungs fólks á Akureyri. Það má því segja að ráðið sé bæjaryfirvöldum, bæði starfsfólki bæjarins og bæjarfulltrúum, til ráðgjafar um málefni ungs fólks. „Ég held að skipti klárlega miklu máli að hafa slíkt ungmennaráð. Það er að mínu mati mikilvægt fyrir þá sem stýra bæjarfélaginu að hlusta á raddir ungs fólks og fylgjast með hvernig líðan þess er,“ segir Felix Hrafn.

Almennt segir hann að margt ungt fólk í dag upplifi töluverða pressu í sínu daglega lífi, bæði setji það sjálft pressu á sig og það upplifi líka ákveðna pressu frá umhverfinu. Snjalltækjanotkunin sé mikil og hún hjálpi oft og tíðum ekki. Áreitið sé gríðarlega mikið, mikið af tilkynningum á samfélagsmiðlunum og mörgum finnist nauðsynlegt að fylgjast með öllum. Stress skapist vegna þess að fólk vilji ekki missa af öllum þessum tilkynningum, hvort sem forritið heitir Snapchat, Instagram eða TikTok.

Nú þegar segist Felix hafa setið tvo fundi í Ungmennaráði Akureyrar og hann lætur vel af. Margt áhugavert sé til umræðu og verði á dagskrá á komandi mánuðum. Framundan er m.a. Stórþing ungmenna, sem verður haldið verður í Menningarhúsinu Hofi 28. febrúar nk., en það er hugsað sem vettvangur ungs fólks á Akureyri til þess að ræða þau málefni sem helst brenna á því. Þann 14. mars verður síðan bæjarstjórnarfundur unga fólksins á Akureyri, þar sem fulltrúum í Ungmennaráði Akureyrar gefst kostur á að ræða við fulltrúa í bæjarstjórn og kynna þeim niðurstöðu Stórþingsins í Hofi.

Felix Hrafn segist lengi hafa haft mikinn áhuga á þjóðfélagsmálum og því fylgist hann vel með daglegum fréttum, bæði hér á landi og út í hinum stóra heimi. Þátttaka hans í Ungmennaráði Akureyrar sé því í rökréttu samhengi við vilja hans til að leggja sitt af mörkum við að gera heiminn betri.