Fara í efni

Frumkvöðlar í VMA markaðssetja vörur og hugmyndir

Frumkvöðlar í VMA kynna og selja BAM! heilsuskot.
Frumkvöðlar í VMA kynna og selja BAM! heilsuskot.

Í frumkvöðlafræði á viðskipta- og hagfræðibraut VMA fá nemendur innsýn í stofnun og rekstur fyrirtækis, allt frá því að hugmynd að vöru eða þjónustu kemur fram og þar til hún verður að einhverju áþreifanlegu. Í öllu þessu ferli er víða komið við; að þróa viðskiptahugmynd, standa vel að undirbúningi að stofnun fyrirtækis, stjórnun, markmiðssetning, að setja upp viðskipta- og markaðsáætlanir, að skapa fyrirtæki og vörunni rétta ímynd og að koma henni síðan á framfæri.

Núna á vorönninni hafa nemendur Írisar Ragnarsdóttur í frumkvöðlafræði sett upp fjögur fyrirtæki – um jafn margar og mismunandi hugmyndir. Nemendum í áfanganum var skipt í fjóra hópa og hver hópur hefur unnið að framgangi sinna hugmynda. Punkturinn yfir i-ið átti að vera þátttaka í árlegri fyrirtækjamessu frumkvöðla sem til stóð að halda í Reykjavík um næstu helgi en vegna Covid farsóttarinnar hefur henni verið frestað.

Sem fyrr segir hafa nemendur í frumkvöðlafræðiáfanganum unnið með fjórar mismunandi hugmyndir:

Flikk Flakk
Flikk Flakk er forrit sem er ætlað að auðvelda fólki að ná í hinar ýmsu upplýsingar á vefnum þegar ferðast er um Ísland. Hér er Instagram reikningur forritsins.

EndurNýtt
EndurNýtt er forrit sem gefur þeim sem hafa aðgang að því kost á að selja og kaupa notaðan varning. Í raun er um að ræða sölutorg á netinu sem allir hafa jafnan aðgang að, bæði þeir sem vilja kaupa og selja vörur.

BAM!
BAM! er heilsuskot með matcha – búið til úr hreinum hráefnum og án aukaefna. Drykkurinn samanstendur af vatni, engiferi, sítrónu og matcha. Slíkur drykkur hefur ekki verið á markaði hér á landi. Markhópurinn er fullorðið fólk sem leggur áherslu á heilsusamlegan lífstíl.
Hægt er að panta vöruna á samfélagsmiðlum og er heimsending á Akureyri og nágrenni.

ARRK kerti
ARRK kerti eru heimagerð kerti sem eru búin til úr endurunnu kertavaxi. Óhætt er að segja að hér sé um að ræða umhverfisvæna framleiðslu - kertaafgangar eru endurnýttir til framleiðslu á einfaldri og stílhreinni vöru. Fimmtán prósent af sölu kertanna renna til Stígamóta - samtaka sem berjast gegn kynferðisofbeldi. Hér er viðtal við forsvarsmenn ARRK á N4. Á fb.síðu verkefnisins er að finna frekari upplýsingar.