Fara í efni

Fjórtán nemendur á síðustu önn í pípulögnum

Elías kennari yfirfer verkefni um snjóbræðslukerfi
Elías kennari yfirfer verkefni um snjóbræðslukerfi

Í vor lýkur hópur nemenda í pípulögnum námi sínu frá VMA sem eru nokkur tíðindi því átta ár eru liðin síðan pípulagningamenn luku síðast námi frá VMA.

Að þessu sinni eru fjórtán nemendur í þessum námshópi, sem Elías Örn Óskarsson, pípulagningameistari á Akureyri, hefur yfirumsjón með. Algengast er að nemendur í pípulögnum fari fyrst í grunnnámið í byggingadeild og velji síðan að fara áfram í pípulagnir, aðrir velja að fara í húsasmíði, húsgagnasmíði, múrverk, dúkalagnir eða málaraiðn. Hér eru frekari upplýsingar um nám í pípulögnum.

Sem fyrr segir ljúka nemendur náminu frá VMA í maí nk. og síðan tekur við sveinspróf í pípulögnum á vegum Iðunnar um mánaðamótin maí-júní. Elías  segir mikilvægt að nemendur séu sem allra best undirbúnir fyrir sveinsprófið og hafi fengið innsýn í sem flesta hluti. Á þessari önn sér hann um verklega þáttinn, eins og á vorönn 2018, en Indriði Arnórsson kennir áætlanagerð og gæðastjórnun og teikningar. Námið skiptist í bóklega og verklega þætti, verklega hlutann þarf að sækja meira og minna út fyrir skólann og því segist Elías sækjast eftir því að fá mismunandi verkefni hjá pípulagnafyrirtækjunum á Akureyri fyrir nemendur til þess að spreyta sig á. Auk þess segist Elías vera í góðu samstarfi við Iðuna fræðslusetur um námskeið af ýmsum toga sem mjög gagnlegt sé fyrir nemendur að fara á. Hann nefnir í því sambandi að um liðna helgi hafi nemendahópurinn verið á námskeiði í Reykjavík um sprinkler vatnsúðakerfi og á morgun, föstudag, sitja nemendur námskeið um varmadælur og Sveinn Björnsson í Blikk- og tækniþjónustunni muni á næstunni uppfræða nemendur um loftræstikerfi. Þessi námskeið eru ekki hluti af námsskrá en Elías segir að í sínum huga sé afar mikilvægt að nemendur geti aflað sér eins víðtækrar þekkingar og mögulegt er og því telji hann þessi viðbótarnámskeið nemendum afar gagnleg.

Allir eru þessir fjórtán nemendur í pípulögnum á námssamningi. Sumir hafa unnið lengi í faginu og eru því búnir með samningstímann en aðrir eru komnir skemur á leið með samninginn. Nemendur eru í skólanum tvo og hálfan dag í viku og vinna hjá sínum vinnuveitendum hina dagana.

Þegar litið var inn í bóklega kennslustund voru nemendur að leysa verkefni er lýtur að snjóbræðslukerfum. Að mörgu er að hyggja í þessum efnum og æfingin skapar meistarann.

„Það er mikil þörf fyrir fleiri pípulagningamenn og því er virkilega ánægjulegt að geta fylgt þessum stóra námshópi eftir. Vonandi verður mögulegt að fara sem fyrst af stað með nýjan nemendahóp, það er klárlega þörf á því. Við sem eldri erum í þessari iðngrein á Akureyri og nágrenni yngjumst ekki og því er mikil þörf á fleiri pípulagningamönnum,“ segir Elías og rifjar upp að 1. október 1976 hafi hann skrifað undir námssamning í pípulögnum.