Fara í efni

Fjarkennir áfanga í vélstjórn frá Lillehammer

Villi, Pollý Rósa og Birta María í Lillehammer.
Villi, Pollý Rósa og Birta María í Lillehammer.

Í vetur dvelur Vilhjálmur Kristjánsson kennari við vélstjórn í VMA í Lillehammer í Noregi. Eiginkona hans, Pollý Rósa Brynjólfsdóttir, kennari við Brekkuskóla, er í námsleyfi í vetur og stundar nám við háskóla í Hamar, sem er í um klukkustundar akstursfjarlægð suður af Lillehammer. Í náminu er áhersla á notkun snjalltækja við kennslu. Dóttir þeirra hjóna, Birta María, sem er á fyrsta ári í framhaldsskóla, er með þeim í Lillehammer og stundar nám í íþróttaskóla í Gausdal í Guðbrandsdal, sem er skammt norðan Lillehammer.

Vilhjálmur lætur vel af dvölinni í Lillehammer. Hann kennir tvo áfanga í vélstjórn í VMA í fjarnámi, annars vegar reglunartækni og hins vegar hönnun skipa, og einnig kennir hann hluta af bóklegum áfanga í vélstjórn á móti Gunnar Möller. „Ég tel að þessi fjarkennsla hafi bara gengið ágætlega, sem ekki síst hefur byggst á því að nemendur hafa verið duglegir og áhugasamir. Þetta er í fyrsta skipti sem þessir áfangar, reglunartækni og hönnun skipa, eru kenndir í fjarkennslu. Nemendur eru duglegir að mæta í fjartímana og fyrir suma þeirra hentar þetta fyrirkomulag ljómandi vel. Dæmi eru um nemendur hafa verið að vinna í makríl austur á Þórshöfn, annar út á sjó og sá þriðji í smölun í Svínafelli í Öræfum. Nemendur hafa því getað tekið þátt í kennslustundunum vítt og breitt um landið. Það hafa komið fram ýmsir kostir við þetta fyrirkomulag, t.d. er námið að mörgu leyti meira einstaklingsmiðað,“ segir Vilhjálmur.

Auk þess að fjarkenna áfanga í vélstjórnarnáminu í VMA ákvað Vilhjálmur að nota tækifærið og setjast á skólabekk og læra norsku. Hann skráði sig á námskeið þar sem eru fyrst og fremst flóttamenn sem hafa komið til Noregs á liðnum árum, t.d. frá Sýrlandi, Afghanistan og Eritreu. „Þetta hefur verið mjög fróðlegt og áhugavert. Kennararnir eru öflugir og skipulagðir og þeir kenna þátttakendum á námskeiðinu ýmislegt er lýtur að norsku samfélagi, auk tungumálsins. Norskunáminu er getuskipt. Fólk þarf að hafa lokið ákveðnu þrepi í norskunni til þess að fá að setjast í framhalds- og háskóla eða að vinna hér. Til dæmis þurfa læknar að hafa lokið prófi í hæsta stiginu, sem er C1, til þess að mega starfa á spítölum í Noregi.

Norskunámskeiðið hefur verið afar áhugavert og ég sé ekki eftir því að hafa skellt mér á það, þó svo að ég þekkti töluvert til norskunnar, enda hef ég unnið áður hér, bæði til sjós og við skipaeftirlit,“ segir Vilhjálmur.

En hvernig horfir kórónuveirufaraldurinn við Norðmönnum? „Þeir telja að þetta taki í það heila fjögur ár. Mér finnst Norðmenn vera almennt rólegir yfir ástandinu en varúðarráðstafanir eru miklar. Góðar merkingar eru í opinberum stofnunum og verslunum og almennt er mikil fræðsla um veiruna og passað vel upp á hlutina. Á dögunum var ég í matvöruverslun og tók þar litla makríldós úr hillu og skoðaði hana og setti hana síðan aftur í hilluna. Þá kom til mín kona og sagði að þetta mætti ekki, ég hefði snert dósina og yrði þá að taka hana og kaupa, sem ég og gerði og þakkaði konunni fyrir ábendinguna,“ segir Vilhjálmur.

Mikil hefð er fyrir útivist og almenningsíþróttum í Noregi, ekki síst í Lillehammer, sem er vinsæll staður fyrir skíðafólk. Birta María, sem er fimmtán ára gömul, æfir gönguskíði með Lillehammer Skiklub og eru æfingar hafnar af fullum krafti á hjólaskíðum og gönguskíðin verða síðan dregin fram þegar fer að snjóa, sem ef að líkum lætur styttist í.