Fara í efni

Fengu styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ

Hafey Hvítfeld Garðarsdóttir og Sóley Margrét Jónsdóttir. Mynd: Háskóli Íslands.
Hafey Hvítfeld Garðarsdóttir og Sóley Margrét Jónsdóttir. Mynd: Háskóli Íslands.

Hafey Hvítfeld Garðarsdóttir og Sóley Margrét Jónsdóttir, fyrrverandi nemendur VMA, voru í hópi nemenda sem fengu fyrr í þessari viku styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en að þessu sinni var 31 nemandi styrktur. Styrkirnir eru veittir nýnemum við HÍ sem hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og/eða íþróttum.

Hafey Hvítfeld útskrifaðist af listnáms- og hönnunarbraut VMA sl. Í viðtali við hana hér á heimasíðunni á lokaönn námsins sagðist hún stefna á kennarann og það gerir hún því hún var að hefja grunnskólakennaranám í HÍ með áherslu á náttúrugreinar. Hafey flutti ávarp fyrir hönd brautskráningarnema í Hofi sl. vor.

Sóley Margrét Jónsdóttir var í sjúkraliðanámi í VMA en flutti suður yfir heiðar til þess að geta einbeitt sér betur að íþrótt sinni, kraftlyftingum. Hún er ein af mestu afrekskonum okkar á því sviði í dag. Á síðasta ári varð hún heimsmeistari og setti heimsmet unglinga í sínum þyngdarflokki, + 84 kg flokki, lyfti samanlagt 710 kg, 40 kg meira en sú sem varð í öðru sæti. Sóley Margrét hóf núna á haustönn nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.

VMA óskar Hafeyju Hvítfeld og Sóleyju Margréti hjartanlega til hamingju með styrkina.