Fara í efni

Voru í Nord+ verkefni í Nyköping í Svíþjóð

Frá vinstri: Auður, Júlíanna, Marín og Hera.
Frá vinstri: Auður, Júlíanna, Marín og Hera.

Viðskipta- og hagfræðibraut VMA hefur frá síðasta ári tekið þátt í Nord+ verkefni sem á ensku er kallað Empowerment by innovaton-a must for inclusion og fjallar í stórum dráttum um hvernig nýta megi nýsköpun til þess að bæta lífsgæði ýmissa minnihlutahópa. Verkefnið er til tveggja ára og í því taka þátt auk VMA framhaldsskólarnir DK-Aarhus Tech í Danmörku, Nyköpings Gymnasium í Svíþjóð, Careeria í Poorvo í Finnlandi, Lääne-Viru College í Eistlandi og Vilnius Vocational Education and Training Centre of Technology and Business í Litháen. Fyrsti hluti verkefnisins var í Poorvo í Finnlandi í október sl. haust, fyrr í þessum mánuði var annar hluti verkefnisins í Nyköping í Svíþjóð, næsta samvera verður í Eistlandi í vor og í haust tekur VMA á móti fulltrúum frá hinum þátttökulöndunum.

Dagana 3. til 8. febrúar sl. fóru fjórir nemendur af viðskipta- og hagfræðibraut, Júlíanna Ósk Halldórsdóttir, Marín Elva Sveinsdóttir, Hera Jóhanna Heiðmar Finnbogadóttir og Auður Lea Svansdóttir, auk kennaranna Katrínar Harðardóttur og Írisar Ragnarsdóttur, til Nyköping. Flogið var til Stokkhólms og þaðan var farið í lest til Nyköping. Í bakaleiðinni gisti hópurinn eina nótt í Stokkhólmi og náði að skoða borgina.

Júlanna Ósk, Marín Elva, Hera Jóhanna og Auður Lea eru sammála um að ferðin hafi verið mjög áhugaverð og lærdómsrík. Fjallað hafi verið um ólíka menningarheima og innflytjendur og var sjónum m.a. beint að því hvernig unnt væri að nota tæknina, þar á meðal snjalltæki, til þess að auðvelda ólíkum hópum samskipti og brjóta niður ósýnilega múra milli ólíkra menningarheima.

Í það heila tóku hátt í þrjátíu framhaldsskólakrakkar frá framangreindum skólum þátt í verkefninu og komu flestir frá Nyköping Gymnasium. Hópnum var skipt í fimm minni hópa og hver þeirra gerði myndband þar sem þemað að þessu var nálgast á mismunandi hátt. Liður í myndbandagerðinni var heimsókn í Bartos Media í Nyköping sem m.a. vinnur auglýsingar, hefur á sínum snærum hljóðver til útleigu, annast hljóðritanir o.fl. Fleiri heimsóknir voru á dagskránni, m.a. á söfn, en bróðurparti tímans var varið í Nyköping Gymnasium.

Sem fyrr segir hittast fulltrúar skólanna næst í Eistlandi í vor og næsta haust í VMA, þar sem verður fjallað um málefni aldraðra frá ýmsu hliðum.