Fara í efni

Taka til hendinni í sumarbústaðnum

Nemendur í pípulögnum leggja á ráðin.
Nemendur í pípulögnum leggja á ráðin.

Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan sumarbústaðurinn sem nemendur á 3. og 4. önn í húsasmíði smíða var reistur undir lok september á síðasta ári. Fyrst og fremst hefur verið unnið inni í húsinu frá því það var reist en í frágang hússins að utan verður ráðist þegar sól hækkar á lofti – járn sett á þakið, veggir klæddir að utan og settir gluggar og hurðir í húsið.

Verkinu miðaði ágætlega á haustönninni. Húsið var einangrað í hólf og gólf, sett milliloft og margt fleira. Þegar kíkt var í húsið í gær voru nemendur í pípulögnum að koma fyrir vatns- og skólplögnum og nemendur í rafvirkjun hafa þegar komið fyrir hluta af raflögnunum í húsið. Það sem er skemmtilegt við þetta verkefni er að það nýtist í verklega þjálfun hjá nokkrum hópum nemenda í ólíkum verknámsgreinum.

Grunnflötur hússins er á milli 50 og 60 fermetrar. Í því eru forstofa, þvottarými, salerni, tvö svefnherbergi og stofa með eldhúskrók. Yfir hluta af húsinu er stórt svefnloft. Gengið er úr stofu út á verönd.

Nemendur í VMA hafa ekki áður byggt hús eftir þessari teikningu og því er verkefnið afar lærdómsríkt fyrir bæði nemendur og kennara. Það mun svo koma í ljós í lok annarinnar á hvaða byggingarstigi húsið verður þegar það verður selt áhugasömum kaupanda en eins og gangur verksins hefur verið til þessa má ætla að frágangur hússins verði kominn vel á veg þegar skóla lýkur í vor.