Fara í efni

Útgáfa Mjölnis var gríðarlega mikil en skemmtileg vinna

F.v.: Karolina, Unnur, Kristín, Þórunn og Harpa.
F.v.: Karolina, Unnur, Kristín, Þórunn og Harpa.

Það er alltaf góð tilfinning að uppskera. Aðstandendur Mjölnis, skólablaðs VMA, sem kom út í gær mega vel við una. Að baki er löng og ströng meðganga sem ritstjórinn, Harpa Lísa Þorvaldsdóttir, segir í senn hafa verið lærdómsríka og afar skemmtilega.

Mjölnir kom glóðvolgur úr prentvélunum í gær. Fjörutíu og átta síður að stærð og fjölbreyttur að efnisvali. Harpa Lísa segir að ástin í sinni víðtækustu merkingu sé þema blaðsins. Ástin er sem sagt eins og rauður þráður í blaðinu.

Auk Hörpu Lísu komu að útgáfu blaðsins Þórunn Ósk Jóhannesdóttir, markaðsstjóri, ritnefndarkonurnar Unnur Jóna Stefánsdóttir og Karolina Domanska og hönnunarstjórinn Kristín Halldóra Atladóttir.

Upphaflega var lagt upp með útgáfu blaðs bæði á haustönn og vorönn en niðurstaðan var eitt blað núna á vorönn. „Þetta var vissulega gríðarlega mikil vinna en jafnframt mjög skemmtileg. Síðustu dagana áður en blaðið fór í prentun unnum við að þessu í átta tíma á dag. Ég get alveg viðurkennt að lokavinnsla blaðsins, yfirferð texta, hönnun og frágangur, tók lengri tíma en ég hafði gert mér grein fyrir. En við svo sem vissum ekki nákvæmlega hvað við vorum að fara út í, við vorum að gera þetta í fyrsta skipti og því var margt í ferlinu nýtt fyrir okkur. Við vorum til dæmis svo uppteknar síðustu dagana fyrir útgáfu blaðsins að við hreinlega gleymdum að láta vita af því í skólanum að blaðið væri að koma út!,“ segir Harpa Lísa.

Blaðinu var dreift frítt í gær og voru afhent á milli fjögur og fimm hundruð blöð. Valgerður Dögg Jónsdóttir kennari tók þessar myndir við það tækifæri.

Mjölnir, sem er fjármagnaður með auglýsingum og styrk frá nemendafélaginu Þórdunu, mun einnig liggja frammi á t.d. kaffihúsum og heimavistinni. Auk þess að dreifa blaðinu var öllum sem vildu boðið upp á íspinna og að taka þátt í einum laufléttum getraunaleik. „Við erum að sjálfsögðu afar þakklátar fyrir stuðninginn sem fyrirtækin sem auglýsa í blaðinu hafa sýnt okkur og viljum koma á framfæri bestu þökkum fyrir hann,“ segir Harpa Lísa.

„Við fórum vissulega út fyrir þægindarammann í þessari vinnu og þegar upp er staðið finnst mér mikilvægast í svona vinnu að leyfa hugmyndafluginu að fara á flug, að þora að segja það sem maður vill. Blaðið hefur fengið rosalega fínar viðtökur sem gleður okkur auðvitað, ekki síst hefur mikill áhugi og hrós frá kennurum glatt okkur,“ segir Harpa Lísa.

Í viðtali við Hörpu Lísu og Þórunni Ósk sem birtist hér á heimasíðunni í september sl. nefndi Harpa Lísa að hún stefndi á nám í fjölmiðlun að loknu námi í VMA. Í ljósi þess hversu mikil vinnan var við útgáfu Mjölnis, er hún ennþá staðráðin í því að læra fjölmiðlun? „Já, ég hef alls ekki skipt um skoðun, síður en svo. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og hef mikla ánægju af því að skrifa,“ segir Harpa Lísa Þorvaldsdóttir.