Fara í efni

Sporjárnið alltaf best

Hafþór Grant, húsasmíðanemi á síðasta ári.
Hafþór Grant, húsasmíðanemi á síðasta ári.

Námi í húsasmíði lýkur við lok sjöttu annar og þá eiga nemendur að vera tilbúnir að fara í sveinspróf. Fyrsta árið er grunndeild fyrir alla sem fara í mismunandi byggingagreinar, síðan velja nemendur sína námsleið – húsasmíði, húsgagnasmíði, pípulagnir o.s.frv. Á fimmtu önninni eru nemendur eingöngu á vinnumarkaði undir handleiðslu meistara í greininni, á samningi, eins og það er kallað, en koma síðan aftur í skólann á sjöttu önninni og setja þá punktinn yfir i-ið í náminu.

Einn í hópi þeirra nemenda sem eru núna á sjöttu önn í húsasmíði og er að undirbúa að fara í sveinspróf í faginu í vor er Hafþór Grant, 27 ára Akureyringur. Hann rifjar upp að smíðarnar hafi ekki verið efstar á blaði hjá honum þegar hann á sínum tíma fór í framhaldsskóla. Fyrst lá leiðin í málmiðnaðinn og vélstjórn í VMA. „Þar var ég í tvö ár en eins og gengur fékk ég skólaleiða og ákvað að hætta og fór að vinna, fór í byggingarvinnu hjá PS Verki, fyrirtæki í eigu móðurbróður míns fyrir sunnan, og þar starfaði ég í tvö ár. Þetta kveikti í mér og ég fékk áhuga á að læra húsasmíðina. Það varð því úr að ég kom norður aftur og fór í námið hérna í VMA,“ segir Hafþór.

Hann segir það allra mest gefandi við smíðarnar að skapa og sjá eitthvað eftir sig. „Persónulega finnst mér skemmtilegast að smíða með handverkfærunum, ekki síst sporjárninu. Handavinnan krefst mestrar nákvæmni,“ segir Hafþór.

Á þessari síðustu önn eru nemendur í verklega hlutanum að búa sig undir sveinsprófið. Nemendur æfa sig að smíða sambærileg stykki og þeim verður síðan gert að smíða þegar að sjálfu sveinsprófinu kemur. Þegar litið var inn í kennslustund hjá Hafþóri og samnemendum hans voru þeir önnur kafnir við að smíða einskonar snúinn stiga. Verkefni sem krefst mikillar nákvæmni og aga. „Á þessum lokakafla námsins er áhersla lögð á sjálfstæð vinnubrögð í verklega hlutanum, við fáum leiðbeiningar frá kennara ef við þurfum á því að halda.“

Eins og flestir ef ekki allir nemendur sem eru að ljúka húsasmíðinni vinnur Hafþór samhliða náminu, þegar tími gefst til. Hann starfar hjá fyrirtækinu BB-byggingum á Akureyri við ýmis verkefni. „Núna erum við að innrétta íbúðir í nýbyggingu sem verða síðan seldar.“

Hvað verður að loknu sveinsprófinu segir Hafþór of snemmt að segja en ætlun hans sé að sjálfsögðu að starfa við húsasmíðarnar í framtíðinni. Það komi síðar í ljós hvort hann fari áfram í meistaraskólann. „Eitt í einu,“ segir Hafþór.

Þegar hann er beðinn um að horfa til baka yfir þá námsþætti sem hann hefur farið í í náminu segir hann að bygging sumarbústaðarins á fjórðu önninni sé það verkefni sem hann hafi tvímælalaust lært mest á. Það verkefni taki til svo ótal margra hluta sem sé gott að hafa í reynslubankanum þegar út í alvöruna sé komið á vinnumarkaði.