Fara í efni

Umsóknarfrestur um fjarnám á vorönn er til 15. janúar

Frá 1994 hefur VMA boðið upp á fjarnám. Nú er í fullum gangi skráning í fjarnám á vorönn og er umsóknarfrestur til nk. þriðjudags, 15. janúar. Stefnt er að því að hefja kennslu í síðustu viku janúar.

Eins og nafnið gefur til kynna á fjarnám sér stað með tölvusamskiptum milli nemenda og kennara. Eðli málsins samkvæmt eru engin landamæri í því hvar nemendurnir eru staðsettir. Enda hafa þeir í gegnum tíðina verið dreifðir um allt land og einnig eru alltaf nokkrir nemendur erlendis í fjarnámi í VMA. Til dæmis þreyttu um tveir tugir fjarnema erlendis próf á haustönn. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag þessara tölvusamskipta milli nemenda og kennara má kynna sér hér.

Hver einig í fjarnáminu kostar 5000 kr. og innritunargjald er 6000 kr. Umsækjendur eru hvattir til þess að kynna sér endurgreiðslur stéttarfélaga sinna vegna fjarnámsins. Annað hvort er unnt að gefa upp greiðslukortanúmer vegna uppgjörs á skólagjöldum eða fá sendan greiðsluseðil.

Ingimar Árnason, kennslustjóri  fjarnáms í VMA, segir að á undanförnum árum hafi nemendur í fjarnámi verið á bilinu 4-500 á önn og hann vonast til þess að á þessari vorönn verði fjöldinn sem næst 500. Ingimar segir að leitast sé við að hafa námsframboðið sem fjölbreyttast, en það má sjá á innritunarvefsíðu fjarnáms VMA. Sem dæmi nefnir Ingimar að auk fjölmargra námsgreina til stúdentsprófs sé þarna meðal annars að finna bróðurpartinn af bóklegu námi til sjúkraliða og þá segir Ingimar að fjarnám VMA njóti sérstöðu fyrir að bjóða upp á stærstan hlutann af meistaraskólanum, en það nám stendur þeim til boða sem lokið hafa sveinsprófi í iðngreinum. 

Nemendum í dagskóla í VMA stendur að sjálfsögðu einnig til boða að taka greinar í fjarnámi, t.d. til þess að þétta hjá sér stundatöfluna og/eða flýta fyrir sér í námi.

Sem fyrr segir er umsóknarfrestur um fjarnám í VMA til 15. janúar nk.  Allar upplýsingar um fjarnámið veitir Ingimar kennslustjóri í síma 464 0300 eða í gegnum netfangið ingimar@vma.is