Fara í efni

Spenntur fyrir næsta vetri

Eyþór Daði Eyþórsson, nýr formaður Þórdunu.
Eyþór Daði Eyþórsson, nýr formaður Þórdunu.

Ný stjórn nemendafélagsins Þórdunu tók við lyklavöldunum í gær af fráfarandi stjórn - í kjölfar kosninganna  í síðustu viku. Stjórnarskiptin fóru fram samkvæmt settum reglum í Gryfjunni. Nokkrir af stjórnarmönnum í nýrri stjórn voru í þeirri gömlu og því flyst þekking og reynsla á milli stjórna, sem er mikilvægt.

Eyþór Daði Eyþórsson var skemmtanastjóri í gömlu stjórninni en næsta skólaár leiðir hann nýju stjórnina sem formaður Þórdunu. Hann stundar nám á félags- og hugvísindabraut VMA.

Eyþór Daði er Akureyringur og kom úr Giljaskóla í VMA haustið 2016. "Ég var ekki mjög mikið í félagslífinu í Giljaskóla að öðru leyti en því að ég tók þátt í undirbúningi árshátíðar á unglingastiginu. Í skólanum sjálfum var ég ekki í leiklistinni en utan skóla var ég töluvert í leiklistinni og byrjaði í leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar árið 2007 og var þar meira og minna í átta ár. Ég tók þátt í uppfærslum Menningarfélags Akureyrar á t.d. Gullna hliðinu og Pílu Pínu. Ég kann ekki að segja hvað nákvæmlega réð því að ég heillaðist af leiklistinni. Líklega er það þó sú staðreynd að vegna þess að ég er með meðfæddan hjartagalla gat ég ekki sem barn stundað íþróttir af sama krafti og aðrir. Mig langaði því að prófa eitthvað annað og leiklistin varð fyrir valinu og sú baktería heltók mig og hefur fylgt mér síðan," segir Eyþór Daði og upplýsir að hann hafi farið í þrjár aðgerðir vegna hjartagallans - nokkurra mánaða gamall, aftur 2002 og loks árið 2013. "Síðan hefur þetta gengið ágætlega og er ekki að há mér dags daglega," segir Eyþór Daði.

Í fyrra var hann sýningarstjóri uppfærslu Leikfélags VMA á Litlu hryllingsbúðinni og í kjölfarið hellti hann sér frekar í félagslífið og fór í stjórn Þórdunu. Þrátt fyrir annir sem fylgja stjórnarstörfum sagði Eyþór Daði ekki skilið við leiklistina og lék Podda peru í Ávaxtakörfunni í vetur.

"Leiklistin er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Ef ég er ekki að leika eða bjástra eitthvað í kringum leiklistina sit ég heima og skrifa handrit að leikriti sem ég hef dundað við. Ég hef verið að vinna með hugmynd sem ég fékk fljótlega eftir að ég byrjaði í VMA. Kannski líða einhver ár áður en ég klára þetta," segir Eyþór Daði og brosi.

Reynsla af stjórnarsetu í Þórdunu í vetur segir Eyþór Daði að hafi verið afar góð. "Þessi reynsla mun nýtast mér mjög vel og ég er mjög spenntur fyrir næsta vetri." Hann segist ætla að leggja sig fram um að efla félagslífið og virkja nemendur sem mest og best. "Ég er alveg með það á hreinu að formennska í Þórdunu verður tímafrek en á móti kemur að ég verð ekki í eins miklu námi næsta vetur og núna á vorönn. Ég reikna með að ljúka náminu á fjórum árum og er því að verða hálfnaður. Fyrst og fremst lít ég á formennskuna í Þórdunu sem mjög góða reynslu fyrir mig."

Eyþór Daði segir að strax eftir að úrslit kosninganna til stjórnar Þórdunu og annarra trúnaðarstarfa í síðustu viku voru ljós hafi strax verið fundað og byrjað að leggja drög að starfinu næsta vetur. Næsta hálfan mánuðinn - fram að prófum - verði reynt að skipuleggja sem mest fyrir næsta vetur - sérstaklega þó fyrstu mánuði næsta skólaárs. Ekki sé eftir neinu að bíða í þeim efnum. Eitt af því sem þurfi að ákveða sé val á leikriti sem Leikfélag VMA setji upp næsta vetur. "Við erum strax farin að velta upp hugmyndum og við stefnum að því að val á leikriti liggi fyrir sem fyrst," segir Eyþór Daði og bætir við að það verði sýnt á vorönn. Einnig sé líklegt að Söngkeppni VMA - Sturtuhausinn verði eftir áramót og auðvitað einnig árshátíðin.

Þessa dagana er nemendafélagið að flytja sig um set innan veggja skólans og fær til afnota rými sem er við Gryfjuna. Flutningarnir leggjast vel í nýjan formann Þórdunu og telur að félagið verði nemendum sýnilegra á þessum stað - við hlið Gryfjunnar - en áður.

Eyþór Daði er sem fyrr segir um það bil hálfnaður í námi sínu í VMA. Hann er ekki farinn að hugsa til þess hvað hann nákvæmlega leggi fyrir sig eftir VMA að öðru leyti en því að hann er nokkuð öruggur á því að fara í nám sem á einn eða annan hátt tengist leiklist.