Fara í efni

Kynntu sér kennslu erlendra nema í Groningen

Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir, Annette de Vink og Anna María Jónsdóttir fyrir framan aðalbyggingu …
Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir, Annette de Vink og Anna María Jónsdóttir fyrir framan aðalbyggingu háskólans í Groningen í Hollandi.

„Í þessari ferð sannfærðust við um það enn frekar hversu mikilvægt er að stórauka íslenskukennslu sem annars tungumáls. Ég held að það sé öllum ljóst að við verðum að bæta verulega í þessa kennslu á framhaldsskólastiginu,“ segir Jóhanna Björk Sveinbjörndóttir, verkefnastjóri erlendra nema í VMA. Jóhanna, Annette de Vink tungumálakennari og Anna María Jónsdóttir, sviðsstjóri verklegra greina í VMA, fóru til Groningen í Hollandi dagana 17. til 24. september sl. þar sem þær kynntu sér hvernig Hollendingar standa að kennslu innflytjenda og hælisleitenda. Ferðin var styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB.

Nemendum sem hafa ekki íslensku sem sitt móðurmál hefur fjölgað umtalsvert í íslensku skólakerfi og þar er VMA engin undantekning eins og fjallað hefur verið um hér á heimasíðunni. Aldrei hafa fleiri nemendur sótt tíma í VMA í íslensku sem öðru máli, á þessari önn eru þeir sem næst tuttugu.

Jóhanna Björk segir að heimsóknin til Groningen hafi styrkt hana í þeirri trú að það þurfi verulegt átak í íslenskukennslu á Íslandi fyrir erlenda nemendur. Allt bendi til þess að þeim muni halda áfram að fjölga á næstu árum og því sé löngu tímabært að stjórnvöld marki sér ákveðna stefnu í þessum málum, t.d. hvað varðar samræmingu námskrár og námsefnis og menntun kennara til þess að kenna íslensku sem annað mál.

Þær heimsóttu fimm skóla í Groningen og kynntu sér hvernig Hollendingar standa að þessum málum. Meðal annars var sóttur heim ISK - Internationale Schakelklas Groningen (International Transition Classes Groningen) þar sem boðið er upp á tveggja ára markvisst nám – eins konar móttökunám – þar sem öll áhersla er á hollensku og hollenskt samfélag. Einnig var fylgst með tungumálakennslu í háskólanum í Groningen (University of Groningen) og sóttir heim framhaldsskólar.

Jóhanna segir Hollendinga komna mun lengra í þessum efnum en hér á landi og af þeim sé ýmislegt hægt að læra. Hún segir athyglisvert að erlendir nemendur í Hollandi hafi ekki aðgang að námsbrautum í framhalds- og háskólum fyrr en loknu tveggja ára markvissu undirbúningsnámi og að þeir geti sýnt fram á lágmarkskunnáttu í hollensku. Öll kennsla fari fram á hollensku og gildi þá einu hvort um sé að ræða hefðbundið bóknám, leiklist eða annað.

„Ég held að sé alveg ljóst að við Íslendingar erum fjarri því að gera nóg í að kenna fólki af erlendum uppruna. Íslenskukunnáttan er auðvitað grunnur að því að þessir nemendur geti sótt nám sem að mestu eða öllu leyti fer fram á íslensku. Heimsókn okkar til Hollands var mikilvægt veganesti fyrir okkur sem vinnum að þessum málum hér. Við komum fílefldar til baka og fullar af hugmyndum,“ segir Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir.