Fara í efni

Söngurinn er málið!

Hafdís Inga Kristjánsdóttir.
Hafdís Inga Kristjánsdóttir.

Það er sannarlega í mörg horn að líta hjá Hafdísi Ingu Kristjánsdóttur. Hún er á fjölgreinabraut VMA, stundar nám við Tónlistarskólann á Akureyri og er í stjórn nemendafélagsins Þórdunu. Það eru að vísu bara tuttugu og fjórir tímar í sólarhringnum en með því að skipuleggja tímann vel er allt hægt.

Hafdís Inga er Húsvíkingur. Hún segir að ákvörðun um að fara í framhaldsskóla á Akureyri hafi ráðist fyrst og fremst af því að hún vildi halda áfram í söngnámi. Ung að árum hafi hún sungið í kór á Húsavík og síðan farið að læra söng. Þá hafi ekki verið aftur snúið. Söngurinn var málið.

Hafdís skellti sér í VMA, fyrst á félags- og hugvísindabraut en á síðari hluta skólagöngunnar hefur hún verið á fjölgreinabraut, sem ekki síst skýrist af því að hún er á fullu í söngnámi í Tónlistarskólanum á Akureyri með náminu í VMA. Áherslan er á rytmískan söng og kennararnir hafa ekki verið af lakara taginu, Andrea Gylfadóttir, Gréta Salóme Stefánsdóttir og Þórhildur Örvarsdóttir. Núna segist Hafdís vera að undirbúa sig fyrir miðpróf í söngnum, það taki hún að óbreyttu annað hvort í vor eða næsta haust.

Í þá þrjá vetur sem Hafdís Inga hefur verið við nám í VMA og Tónlistarskólanum á Akureyri hefur hún búið á Heimavist MA og VMA og segist kunna því mjög vel.

Þessi framhaldsskólaár hafa vissulega verið töluvert öðruvísi en þau hefðu með réttu átt að vera vegna kóvidfaraldursins. Ekki þarf að hafa um það mörg orð að kennslan raskaðist mikið, að ekki sé talað um félagslífið sem Hafdís Inga segir að hafi fyrst í vetur verið með nokkuð eðlilegum hætti frá því fyrir heimsfaraldurinn.

Söngkeppni framhaldsskólanna var einn af þeim viðburðum sem fór ekki varhluta af kóvidinu. Gluggi til þess að halda keppnina opnaðist haustið 2021 og þá var hún haldin í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ – og Hafdís Inga var þar fulltrúi VMA.

Í vetur hefur Hafdís Inga verið ritari stjórnar Þórdunu. Vissulega mjög mikið að gera, segir hún, en frábær reynsla. Þann 10. mars sl. efndi Þórduna til glæsilegrar 30 ára afmælishátíðar í Sjallanum og með sanni má segja að hún hafi verið nemendafélaginu til mikils sóma. Hafdís segir að þó svo að það sé mjög mikil vinna að vera í stjórn nemendafélagsins hefði hún hreint ekki viljað missa af því tækifæri, félagsstörfin séu dýrmæt í reynslubankann og afar þroskandi. Á afmælishátíðinni í Sjallanum steig Hafdís Inga á svið og heillaði hátíðargesti með frábærum flutningi.

En hvað tekur við eftir að Hafdís Inga útskrifast með stúdentspróf frá VMA í vor? Hún segist vinna í heimahögunum í sumar en næsta vetur verði hún áfram á Akureyri, áherslan verði á söngnámið í Tónlistarskólanum á Akureyri á næsta skólaári. Hvað framtíðin beri síðan í skauti sér komi síðar í ljós en eitt af því sem komi til greina sé að fara í kennaranám í fyllingu tímans og fá réttindi til tónlistarkennslu.