Fara í efni

Hafdís Inga Kristjánsdóttir fulltrúi VMA í frestaðri Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna verður 9. okt. nk.
Söngkeppni framhaldsskólanna verður 9. okt. nk.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð að covid-faraldurinn hefur sett þjóðfélagið meira og minna á hliðina frá því að hann hófst í mars 2020. Félagslífið í framhaldsskólunum, þar á meðal VMA, hefur ekki farið varhluta af því. Einn þeirra föstu viðburða sem þurfti að fresta á síðasta skólaári vegna covid var Sturtuhausinn – söngkeppni VMA og sömuleiðis var Söngkeppni framhaldsskólanna blásin af. En nú er landið tekið að rísa og það á líka við um félagslífið í VMA.

Nýlega voru þau boð látin út ganga að ákveðið hefði verið að halda hina frestuðu Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir skólaárið 2019-2020. Hún fer fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ laugardagskvöldið 9. október nk. Þar gefst fólki kostur á að fylgjast með keppninni í sal og einnig verður henni streymt á netinu.

Anna Birta Þórðardóttir, varaformaður Þórdunu, segir að ákvörðun um að halda Söngkeppni framhaldsskólanna núna hafi verið nokkuð óvænt og fyrst hafi viðbrögð Þórdunu verið á þann veg að skólinn myndi ekki taka þátt í keppninni enda hafi ekki verið Sturtuhaus á liðnum vetri. Síðan hafi verið haft samband við þá sem höfðu skráð sig til þátttöku í Sturtuhausnum í janúar sl., sem var síðan frestað, og þá hafi komið í ljós áhugi þeirra á þátttöku. Því varð úr að sl. miðvikudag var efnt til óformlegs Sturtuhauss í Gryfjunni í VMA, með dómurum og tæknifólki, til þess að velja fulltrúa skólans í þessa frestuðu Söngkeppni framhaldsskólanna 2021. Sigur úr býtum bar Hafdís Inga Kristjánsdóttir og verður hún því fulltrúi VMA í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ þann 9. október nk.

Sturtuhausinn – söngkeppni VMA á þessu skólaári verður haldinn núna á haustönn, nánar tiltekið fimmtudagskvöldið 11. nóvember nk. og segir Anna Birta að undirbúningur fyrir keppnina sé nú þegar kominn í fullan gang. Áður en langt um líður hefst skráning í keppnina og mun Þórduna auglýsa hana rækilega. Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir skólaárið 2021-2022 verður síðan í mars á næsta ári.