Fara í efni

Samspil samfélagsins og listarinnar

Bollaleggingar um menningarsögulega tímalínu.
Bollaleggingar um menningarsögulega tímalínu.

Nám á listnáms- og hönnunarbraut er ein námsbrauta (myndlist og textíl) sem VMA býður upp á til stúdentsprófs. Einn af þeim grunnáföngum sem kenndur er á fyrstu önn er Listir og menning, þar sem fjölmargt áhugavert er skoðað í samspili samfélagsins og ólíkra listgreina. Forsendur listgreina eru skoðaðar út frá ýmsum sjónarhornum og hvernig hugmyndafræðilegar forsendur listsköpunar taka breytingum í takt við breytingar á samfélaginu, t.d. varðandi trúarbrögð, tækni, vísindi og stjórnmál.

Núna eru tveir hópar í Listum og menningu á haustönn, kennarar eru Helga Björg Jónasardóttir og Véronique Legros og þegar litið var inn í tíma til nemenda Helgu Bjargar voru þeir að vinna verkefni sem fólst í því að leggja drög að menningarsögulegri tímalínu, allt frá fornsögulegum tíma til dagsins í dag. Á leiðinni eru óteljandi mörg þjóðerni og tímaskeið sem hvert og eitt hefur sinn stíl. Nægir að nefna Egypta, Grikki, Rómverja, klassíska tímann, endurrreisnartímann, expressionismann, kúbismann, barokk, rómantíkina og raunsæið, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er einmitt verkefni þar sem ætlast er til að nemendur leggi höfuðið í bleyti, kynni sér strauma og stefnur og setji viðfangsefnið fram á sinn persónulega hátt.