Fara í efni

Gaman að vera aldursforsetinn

Jóhanna Lilja Pálmarsdóttir.
Jóhanna Lilja Pálmarsdóttir.

Það er aldrei of seint að setjast á skólabekk og ná markmiðum sínum. Jóhanna Lilja Pálmarsdóttir er 26 ára gömul og býr í Hólakoti í Eyjafjarðarsveit. Hún rifjar upp að árið 2011 hafi hún farið í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki en ekki fundið sig í náminu og það sama hafi verið upp á teningnum tveimur árum síðar þegar hún innritaðist til náms í VMA. Námsáhuginn var ekki til staðar, hún hafði einfaldlega ekki gaman af því að sitja á skólabekk. Jóhanna lét því gott heita með skólagöngu á þessum tíma og fór út á vinnumarkaðinn.

Eitt af því sem Jóhanna prófaði var að fara austur á Vopnafjörð og vinna þar í sláturhúsinu í sláturtíðinni. Hún segir að hún hafi fundið sig vel í þessari vinnu og úr varð að hún vann við sauðfjárslátrun á Vopnafirði í sex haust. Nokkrum árum síðar er Jóhanna Lilja í grunndeild matvæla- og ferðagreina í VMA og hefur tekið stefnuna á að læra kjötiðn. Hún segir að áhuginn á kjötiðn hafi kviknað í vinnunni á sláturhúsinu á Vopnafirði.

Til þess að innritast í nám í kjötiðn þarf Jóhanna að ljúka grunndeild matvæla- og ferðagreina og það gerir hún í vor. Hún á von á öðru barni sínu í apríl (eldra barnið fæddist árið 2015) en er engu að síður staðráðin í að ljúka náminu í vor. Grunndeildinni ætli hún að ljúka til þess að opna dyrnar til náms í kjötiðn, sem hún stefnir á við fyrsta tækifæri. Nám í kjötiðn er annars vegar námssamningur á vinnustað og hins vegar faggreinar í skóla.

Jóhanna segir að allt annað sé upp á teningnum með námið núna samanborið við þegar hún fór í framhaldsskóla eftir grunnskólann. Núna sé námsáhuginn til staðar og henni finnist námið í grunndeildinni í senn áhugavert og skemmtilegt. „Ég hugsa að ég sé aldursforsetinn í grunndeildinni. Það truflar mig ekkert og er bara gaman,“ sagði Jóhanna Lilja.