Fara í efni

Kom mér mjög á óvart

Jónas Bjarnason, Alexander og forseti Íslands.
Jónas Bjarnason, Alexander og forseti Íslands.

„Þetta kom mér óneitanlega mjög á óvart,“ segir Alexander Örn Ómarsson, pípulagningamaður, en hann fékk hæstu einkunn á sveinsprófi í pípulögnum yfir landið á síðasta ári. Alexander tók sveinsprófið í VMA í maí 2022 og á nýsveinahátíð Iðnaðarmannamannafélagsins í Reykjavík í febrúar sl. var upplýst að Alexander hefði lokið sveinsprófinu með þessum afbragðs góða vitnisburði.

Alexander Örn var í síðasta námshópi sem Elías Örn Óskarsson pípulagnameistari hafði umsjón með í VMA og tók hann sveinsprófið ásamt félögum sínum undir lok námstímans í maí á síðasta ári. Prófskírteini frá VMA fékk hann á vorbrautskráningu. Alexander starfar hjá fyrirtækinu Bjarna Fannberg Jónassyni ehf. á Akureyri og er Jónas Bjarnason meistari hans. Alexander lætur af því að það sé yfirdrifið nóg að gera.

Þessi árangur Alexanders Arnar þýðir að hann hlaut silfurverðlaun á nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík í febrúar sl. og var eini sveinninn í pípulögnum á landinu sem fékk slíka viðurkenningu. Sextán aðrir nýsveinar fengu silfurverðlaun, þar á meðal Baltasar Ari Hjálmarsson, múrsmiður, sem lærði múrsmíði í VMA. Þriðji nemandinn úr VMA var Heiðar Smárason húsasmiður og hlaut hann bronsverðlaun fyrir árangur sinn á sveinsprófi. Í það heila fengu níu nýsveinar á landinu öllu bronsverðlaun. Hér má sjá skrá yfir alla sem hlutu silfur- og bronsverðlaun á nýsveinahátíðinni.

„Þegar ég fór í sveinsprófið var mér efst í huga að standa mig vel til þess að fá starfsréttindin og ég vissi strax eftir prófið að ég hefði náð markmiðum mínum. Löngu síðar fékk ég tölvupóst frá Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík um nýsveinahátíð. Ég velti því ekkert frekar fyrir mér þar til ég fékk upphringingu og ég var spurður hvort ég ætlaði ekki að mæta. Ég sagðist ekki reikna með því enda væri ég á Akureyri. Þá var mér tjáð að það væri gott að ég gæti mætt því ég ætti að taka við verðlaunum frá forseta Íslands! Þetta kom mér heldur betur á óvart og auðvitað sagðist ég mæta!“

Alexander rifjar upp að hann hafi upphaflega ekki ætlað í pípulagnir. Hann hafi byrjað að læra bifvélavirkjun og starfað við það um hríð en síðan hafi hann ákveðið að taka u-beygju og drifið sig í nám í pípulögnum þegar það var í boði í VMA. Hann sjái ekki eftir því.

Myndin sem fylgir með þessari frétt er fengin af heimasíðu Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík.